Ég held að með því að vekja athygli á ummælunum án þess að láta það á sig fá og halda ótrauð áfram þátttöku í stjórnmálum getum við sigrað þá sem eru hvað háværust í ómálefnanlegri gagnrýni. Vonandi minnkar þá líka umræðan líka um ómálefnanlegu gagnrýnina og frekar verði farið að ræða hvað maður er segja, efnislega og fyrir hvaða hugsjónir maður stendur. Dómstóll götunnar verður þó alltaf hluti af þátttöku í stjórnmálum, enda sjálfsagt að gagnrýna þá og veita þeim aðhald sem fara með stjórn landsins.
Hér má lesa viðtalið sem birtist við mig í Glamour í júní.
Hver eru þín fyrstu viðbrögð þegar þú lest slæm komment um þig á internetinu, hvor sem þau eru nafnlaus eða ekki? Ég læt þetta ekki á mig fá, ég les þau sjaldan en þegar ég geri það þá er það aðallega af forvitni. Athugasemdirnar eru auðvitað misslæmar. Ég er alltaf til í að fá málefnanlega gagnrýni og takast á um hugsjónir og stefnu. Aftur á móti þegar athugasemdirnar eru svívirðingar og niðrandi reyni ég að horfa á það sem hvatningu til að halda áfram að tjá mig og leyfa ekki illum athugasemdum að hafa áhrif á þátttöku mína í þjóðfélagsumræðunni.
Hvernig brynjar maður sig fyrir svona löguðu, er það mögulegt? Já það er alveg hægt, þegar maður ákveður að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni í dag eru ljótar athugasemdir orðnar fylgifiskur þess. Þeir sem gera það eru því að vissu leyti viðbúnir, þó eru athugasemdirnar oft það slæmar að þær koma enn fólki á óvart sem byrja að spreyta sig í stjórnmálunum t.d. Maður verður líka bara mun frekar að einblína á þau hrós og hvatningu sem maður fær á sama tíma.
Var það eitthvað af slæmum kommentum, sem hefur rist dýpra en annað?
Já, ef það snertir fjölskylduna mína eða sé krafa á að ég drepi mig skoðana minna vegna. Það eru auðvitað alveg ótækt að fólk sem tekur þátt í þjóðfélagsumræðu þurfi að lifa við það að fá líflátshótanir og vera kallaðir mannhatarar t.d. einungis því skoðanir þess samræmast ekki skoðunum allra.
Helduru að einhver af þeim sem setti fram dónalegt komment í þinn garð myndi segja það við þig í eigin persónu?
Eflaust einhverjir, en ég held að það sé mikill minnihluti. Einn hefur hringt og beðist afsökunar á ummælum sínum og ég kann virkilega vel að meta það. Sá maður er maður að meiri.
Hvernig hefur þín hegðun á internetinu breyst eftir að þú fórst að taka þátt í stjórnmálum? Ég auðvitað átta mig á því að ég er orðin frekar opinber persóna og í raun allt sem ég geri á samfélagsmiðlum er einhvern veginn orðin eign fjölmiðla og opið fyrir gagnrýni almennings. Eflaust hugsa ég mig örlítið betur um áður en ég set eitthvað niður, en samt sem áður reyni ég alltaf að vera ég sjálf og láta þetta ekki stjórna því sem ég geri og segi.
Hugsaru meira eða minna um viðbrögðin þegar þú skrifar nýjan status, tíst eða setur inn mynd á Instagram til dæmis?
Ég hef tamið mér það að láta ekki ill ummæli stjórna því sem ég segi og geri.
Það á jafnt við um samfélagsmiðla og ég tel mikilvægt að halda því áfram þannig.
Telur þú að konur lendi frekar í því að verða fyrir aðkasti í kommentakerfum fjölmiðla og
samfélagsmiðla og hvers vegna þá?
Nei, fyrir mér snýst það ekki um hvort ég sé kona eða karl. Það virðist vera að allir sem gefa sig í þjóðmálaumræðu liggi undir höggi. Frekar verð ég vör við fordóma vegna ungs aldurs. Einstaka sinnum hafa ummælin verið kvenfyrirlitning. Ég held að í dag hafi allir sömu tækifæri til að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni og bæði konur og karlar fá góðan hljómgrunn ef þau hafa eitthvað til málanna að leggja. Þá liggja þau að sama skapi bæði undir höggi í aðkasti kommentakerfanna fyrir að hafa skoðun.
Hver er þín skoðun á kommentakerfum yfirhöfuð? Er það eitthvað sem býður hættunni heim eða nauðsynleg viðbót fjölmiðla til að búa til umræðu um fréttir?
Hér ríkir tjáningarfrelsi og ég er ekki á móti kommentakerfum. Fólk þarf þó að bera ábyrgð á orðum sínum og fjölmiðlar geta einnig þurft að bera ábyrgð á nafnlausum athugasemdum á sínum kommentakerfum, séu þau það alvarleg að tjáningarfrelsið verndi þau ekki. Tjáningarfrelsið er ein mikilvægasta verndin svo hér geti þrifist nauðsynleg umræða í lýðræðisþjóðfélagi.
Heldur þú að kommentakerfi og eins og margir kalla, dómstóll götunnar, sem hefur nú háværa og óvægna rödd í gegnum kommentakerfi og samfélagsmiðla, fæli ungt fólk frá því að taka þátt í pólitík í dag? Hvernig horfðir þetta við þér og hvaða ráðleggingar hefuru?
Já, ég held það og það er einna helst ástæðan fyrir því að ég hef vakið á því athygli hvernig rætt er um mig á kommentakerfunum. Ekki af því að ég horfi á sjálfa mig sem fórnarlamb, heldur því ég hef gríðarlega miklar áhyggjur af því að ungt og öflugt fólk sem hefur áhuga á stjórnmálum vilji síður taka þátt og hafa frammi sínar skoðanir vegna þeirra niðrandi ummæla sem allir fá vegna þátttöku sinnar í þjóðfélagsumræðunni. Það er samfélags mein að hér geti fólk ekki haft uppi skoðanir sinar, verið ósammála og tekist á um málefni án þess að svívirða og hóta einstaklingnum. Ég held að með því að vekja athygli á ummælunum án þess að láta það á sig fá og halda ótrauð áfram þátttöku í stjórnmálum getum við sigrað þá sem eru hvað háværust í ómálefnanlegri gagnrýni. Vonandi minnkar þá líka umræðan líka um ómálefnanlegu gagnrýnina og frekar verði farið að ræða hvað maður er segja, efnislega og fyrir hvaða hugsjónir maður stendur. Dómstóll götunnar verður þó alltaf hluti af þátttöku í stjórnmálum, enda sjálfsagt að gagnrýna þá og veita þeim aðhald sem fara með stjórn landsins.