Þrátt fyrir að vel gangi í efnahagslífinu bíða okkur ýmis verkefni, stór og smá. Úrbætur á tryggingakerfi öryrkja er eitt af stóru verkefnunum sem á að vera í forgangi á nýju kjörtímabili. Kerfið í dag er á margan hátt ranglátt og refsar öryrkjum með sérstökum hætti. Í dag er það svo að einstætt foreldri missir heimilisuppbót og barnalífeyrir um leið og barn verður 18 ára. Þannig eru börn einstæðra öryrkja í raun neydd að flýja að heiman til að koma í veg fyrir verulega kjaraskerðingu. Þetta verður að lagfæra, enda um réttlætismál að ræða. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum jafna stöðu ungmenna og rjúfa þessa ósanngjörnu tengingu og skerðingu örorkulífeyris.
Það má öllum vera ljóst að með því að leyfa börnum sínum að búa heima litlu fram yfir 18 ára aldur geta foreldrar aðstoðað börn sín við að fóta sig í lífinu, hvort sem þau eru í námi eða að hefja sinn starfsferil. Það er engin ástæða til að refsa öryrkjum fyrir að leyfa börnum sínum að búa heima eftir 18 ára aldur.
Það er sárt til þess að hugsa að okkur hafi ekki enn tekist að klára nauðsynlegar breytingar á lögum um almannatryggingar öryrkja og styrkja með því stöðu þeirra. Við þurfum að einfalda kerfið með það að leiðarljósi að bæta hag öryrkja svo við getum öll verið stolt af því kerfi sem við höfum byggt upp. Við þurfum að tryggja fjárhagslegt öryggi öryrkja og gera þeim kleift að eiga mannsæmandi líf. Krónu-á-móti-krónu skerðingu verðu að afnema og taka upp starfsgetumat og innleiða hlutabótakerfi. Við uppstokkun tryggingakerfis öryrkja verður að huga sérstaklega að hagsmunum ungra öryrkja sem eiga lítinn eða engan rétt í lífeyriskerfinu.
Það er einnig hugsunarefni hve ungu fólki á örorku er að fjölga. Augljóst virðist að heilbrigðiskerfið hefur ekki verið í stakk búið til að veita þá þjónustu sem við ætlumst til, ekki síst á sviði geðheilbrigðis.
Í kosningabaráttu lofa margir flokkar háum fjárhæðum í hina ýmsu málaflokka. En það verður alltaf að forgangsraða. Almannatryggingakerfið er sameiginlegt forgangsverkefni okkar allra með sama hætti og við stöndum saman að öflugu heilbrigðiskerfi og menntakerfi.
Árangursrík og skynsamleg stjórn efnahagsmála á síðustu árum hefur aukið möguleika okkar til að ljúka mörgum verkefnum sem hafa því miður setið á hakanum. Staða ríkissjóðs er allt önnur og sterkari en árið 2013 þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók sæti í ríkisstjórn. Í samvinnu við hagsmunasamtök öryrkja er því tækifæri til að sækja fram.
Birtist í Morgunblaðinu 18. október 2017.