Þótt margir sjái birtuna í skammdeginu megum við ekki láta það átölulaust hve margir sjá hana ekki, hve margir hugleiða að taka sitt eigið líf og hve mörgum tekst það árlega vegna geðrænna sjúkdóma. Það er stundum óhugnanlega stutt á milli gleði og sorgar á lífsins vegi. Því hafa allir kynnst. Á þingsetningu fyrir ári tók ég við nýju starfi með mikilli tilhlökkun á sama tíma og mér bárust fregnir að sama dag hefði kær vinur tekið sitt eigið líf. Í þeim sporum hafa margir Íslendingar verið. Að missa barnið sitt, maka eða vin sem sá ekki lengur tilgang með lífinu.
Við höfum á síðustu árum stórbætt forvarnir og fræðslu víða. Slys á sjó heyra orðið til undantekninga, umferðaröryggi hefur aukist og lýðheilsa batnar almennt. En við höfum vanrækt það að sinna geðrænum sjúkdómum. Ef annar sjúkdómur myndi taka frá okkur jafn marga og geðrænir sjúkdómar gera, þá værum við ekki með hugann við annað en að finna á því lausn. Við þurfum að gera ráðstafanir á öllum stigum vandans. Við höfum ýmis tæki og tól til að bregðast við, m.a. geðheilbrigðisstefnu til 2020, sem er sú fyrsta í sögu Alþingis. Það er því bót í máli að sjá að í sáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að stefnunni skuli bæði hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð. Áhersla er á að efla geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum, framhaldsskólum og sjúkrahúsum úti um land allt ásamt mikilvægi þess að tryggja bráða- og barna- og unglingageðdeildum Landspítalans fjármagn.
Eitt af markmiðum stefnunnar er að auka þekkingu og vitund almennings um viðfangsefnið. Það er mikilsvert því fordómar ásamt vanþekkingu eru ekki til þess fallnir að gera fólki sem glímir við geðröskun lífið léttara. Það er nógu erfitt að kljást við sjúkdóminn sjálfan. Til þess að fólk geti unnið bug á honum verður það að geta rætt vandann opinskátt, án þess að því fylgi skömm. En það er ekki nóg að efla umræðuna um geðheilbrigðismál, það þarf að takast á við þann vanda sem er til staðar.
Mikilvægast er að greina og taka á vandamálum af þessum toga á fyrstu stigum, bæði í sjálfu heilbrigðiskerfinu og einnig með félagslegum úrræðum. Aðgengi fólks að sálfræðiaðstoð innan heilsugæslunnar hefur verið eflt og áfram verður unnið að því að gera heilsugæsluna betur í stakk búna til að sinna þessari brýnu fyrsta stigs þjónustu. Á því stigi, fyrsta stigi vandans, megum við ekki bregðast þeim sem glíma við geðræn vandamál. Ef ekkert er gert getur vandinn fljótt undið upp á sig. Við þekkjum of mörg dæmi þess, þá sérstaklega meðal ungra karlmanna.
Hugarfarsbreyting hefur orðið í þessum málum á undanförnum árum en enn er mikið verk fyrir höndum. Sameiginlegs átaks er þörf. Við skulum taka höndum saman og sinna þessu verkefni öll sem eitt.
Pistillinn „Lýsum upp skammdegið” sem birtist í Morgunblaðinu 5. desember.