Um stefnuræðu 2017: Framfarir

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn Það er nær sama hvert litið er, Íslendingum vegnar vel. Nær allar hagtölur eru jákvæðar, hér er næga vinnu að fá, tekjur heimilanna hafa aukist, það er uppgangur í atvinnulífinu og landsmönnum vegnar almennt vel. Ísland heldur áfram að skara fram úr í jafnréttismálum og samkvæmt alþjóðlegum úttektum er heilbrigðiskerfið á Íslandi eitt það besta í heimi. Lífskjör á Íslandi eru með því besta sem gerist í heiminum.

En þrátt fyrir góða stöðu og jákvæðar horfur er ekki þar með sagt að á Íslandi sé ekkert sem megi bæta, breyta eða lagfæra. Enn eru íþyngjandi takmarkanir á efnahagslegu og persónulegu frelsi við lýði hér á landi og takmarkanir sem skerða sjálfsákvörðunarrétt og atvinnufrelsi fullorðins fólks. Aukið frelsi, frjálslyndi, er lykilþáttur þegar kemur að lífskjörum almennings. Það er alveg sama hvaða mælikvarði er notaður, þar sem almenningur hefur frelsi til athafna eru lífskjör betri, lífaldur lengri, jöfnuður meiri, borgaraleg réttindi meiri, fátækt minni, jafnrétti kynjanna meira og þannig mætti áfram telja. Það á þess vegna að vera skýr stefna okkar að auka frelsi fólks til þess að haga sínu lífi eins og það sjálft ákveður, svo lengi sem það skerðir ekki sama frelsi annarra.

Í því samhengi er rétt að nefna að sumir flokkar og einstaka stjórnmálamenn gefa sig út fyrir að vera frjálslyndir án þess að vera það í raun og veru. Það er ekki frjálslyndi eitt og sér þegar stjórnmálamenn telja sig hafa góðar og réttlátar skoðanir. Stundum eru það þeir sem hæst tala um frjálslyndi sem eru þó alltaf tilbúnir að greiða atkvæði með opinberri íhlutun og íþyngjandi aðgerðum í nafni umhyggju fyrir velferð almennings. En þar er í raun á ferð forsjárhyggja þess sem öllu vill ráða.

Þá eru aðrir sem segjast vilja enn meira frjálslyndi en verða fljótt, þegar á reynir, valkostur til vinstri. Eini marktæki mælikvarðinn á það hvort einhver sé í raun frjálslyndur eða ekki er hvort viðkomandi sé tilbúinn að styðja aukið frelsi fólks til að gera eitthvað sem honum eða henni finnst vond hugmynd. Það er ekkert mál að segjast styðja rétt fólks til að vera sammála sér en það er frelsi þeirra sem eru ósammála sem við þurfum að standa vörð um.

Góðir Íslendingar. Við sem störfum á Alþingi verðum að treysta á fjölbreytileika mannlífsins. Það er réttur allra að fá að leita eigin tækifæri til að skapa eigin hamingju og grípa þau tækifæri sem gefast. Það á við í atvinnumálum, einkalífi sem öðru.

Bók sem nefnist því einfalda nafni Framfarir var nýlega gefin út hér á landi í íslenskri þýðingu. Þar skrifar sænski sagnfræðinginn Johan Norberg um hvernig líf okkar á jörðinni hefur aldrei verið betra en einmitt nú. Það er ekki persónuleg skoðun höfundar heldur fullyrðing sem er rökstudd með vísindalegum staðreyndum. Þær þjóðir sem hafa náð hvað mestum árangri og framförum á síðustu árum, áratugum og öldum eru sömu þjóðir og hafa notið hvað mests frjálslyndis. Allur árangur kemur til vegna þróunar, hugmyndavinnu og dugnaðar karla og kvenna sem fengu frelsi til að lifa eigin lífi og bæta heiminn. Þetta eru framfarir sem engin stofnun eða ríkisstjórn getur stjórnað eða búið til.

Frelsi er ekki skikkja sem hægt er að sveipa um sig þegar hentar í pólitískri baráttu eða rétt fyrir kosningar. Frelsi er afstaða okkar til daglegs lífs og hvernig við viljum haga okkur og koma fram við aðra. Við viljum vera frjálslynd og það er undir okkur sjálfum komið hvort við stöndum við það. Okkur sem yngri erum er stundum legið á hálsi fyrir að tala um mál sem engu skipta. Það er þó þannig að hvert atriði er yfirlýsing um að við höfum ákveðið að haga lífi okkar með frjálslyndi að leiðarljósi. Sú barátta tekur aldrei enda þegar aðrir tala fyrir sífellt auknum afskiptum hins opinbera.

Ég vonast til þess að allir flokkar taki höndum saman á þessu þingi og beiti sér fyrir sjálfsögðum frjálslyndismálum, almenningi til hagsbóta. Þannig getum við endurgoldið kjósendum það traust sem okkur var sýnt þegar við vorum kosin til þess að taka sæti á þessu þingi, með því að treysta kjósendum til að ákveða hvað þeim sjálfum er fyrir bestu.