Rétt fyrir jólin fékk ég tækifæri til að mæla fyrir frumvarpi um afnám stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði. Vonandi tekst okkur þingmönnum að afgreiða frumvarpið á nýju ári enda mikið hagsmunamál fyrir einstaklinga og fjölskyldur.
Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið. Einstaklingum ber nú almennt að greiða 0,8% stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði en þó er veittur helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða. Lagt er til að gjaldið falli alfarið niður vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði.
Við þekkjum flest stöðuna á húsnæðismarkaði. Skortur og hátt verð ekki síst hér í hér í Reykjavík þar sem sinnuleysi borgaryfirvalda – eða hugmyndafræði skortsins – hefur leitt til óeðlilegra verðhækkana og valdið ungu fólki vandræðum við að eignast sína fyrstu íbúð. Skortstefnan hefur einnig leitt til þess að eldra fólk á erfiðara með að minnka við sig og þeir sem eru komnir með fullt hús af börnum eiga erfiðara með að stækka við sig. Það þarf að rjúfa vítahringinn.
Markmið frumvarpsins er að auðvelda fólki að eignast íbúðarhúsnæði. Fyrir 35 milljóna króna íbúð greiðir kaupandi tæpar 300 þúsund krónur í aukaskatt, fyrir 75 milljóna króna húsnæði er gjaldið um 600 þúsund og þannig mætti áfram telja. Það má öllum vera ljóst að hundraða þúsunda króna skattur vegna fasteignakaupa er hvorki réttlátur né sanngjarn. Hann er einstaklega íþyngjandi fyrir einstaklinga sem eru að taka sín fyrstu skref á húsnæðismarkaðinum. Það þekkja einstaklingar sem hafa keypt sér fasteign að hver króna telur fyrstu mánuðina. Að losna undan þungum eingreiðsluskattinum skiptir einstaklinga og fjölskyldur miklu ekki síst í upphafi fjárfestinga.
Ætla má að ríkið verði af um milljarði króna í tekjur falli gjaldið niður. Hér er því um beina skattalækkun að ræða. Alltof sjaldan er mælt fyrir frumvörpum sem fela í sér skattalækkanir og því koma ávallt upp spurningarnar hvaða skatta eigi að hækka á móti eða hvaða ríkisútgjöld eigi að lækka. Sjaldan eru þeir sem leggja til aukin útgjöld hins vegar krafðir svara við hvernig eigi að fjármagna þau – með hækkun skatta og/eða niðurskurði annarra útgjalda.
Hægt er að benda á ýmislegt sem betur má fara í rekstri ríkisins, en það verður að bíða betri tíma. En afnám stimpilgjalda eins og ég hef lagt til jafngildir u.þ.b. 0,1% af heildarútgjöldum ríkisins á þessu ári samkvæmt fjárlögum. Til að fjármagna skattalækkunina er því varla vandamál fyrir ríkissjóð að hagræða í sínum garði – að meðaltali um 0,1% – á sumum sviðum enn meira en annars staðar lítið sem ekkert. Einstaklingar græða því tvöfalt: Farið er betur með skattfé þeirra og þeir þurfa ekki að greiða eins háa skatta og áður.
Greinin mín „Það munar um minna” sem birtist í Morgunblaðinu í dag, 6. janúar.