,,Að gæta hennar gildir hér og nú“

Það er mikið fagnaðarefni að íslenskan muni verða fullgild í stafrænum heimi árið 2022. Ríkisstjórnin mun verja á næsta ári 450 milljónum króna til máltækniáætlunar. Með máltækniáætluninni eru sett fram verkefni til að byggja upp nauðsynlega innviði svo að við getum notað íslenskuna í tækni framtíðarinnar og hún sé þannig gjaldgeng í samskiptum sem byggjast á tölvu- og fjarskiptatækni.

Máltækni er tækni sem gerir hugbúnaði kleift að fást við tungumál. Mikil bylting hefur átt sér stað á sviði máltækni og með nýrri tækni verður tungumálið meira notað í samskiptum við tæki. Tölvur eiga erfiðara með tungumál en flókna útreikninga þar sem tungumál taka stöðugum breytingum og eiginleikar fólks til að tala, skilja og þróa tungumálið eru meðfæddir. Í áætluninni sem er til fimm ára er lögð áhersla á þróun talgreinis, talgervils, þýðingarvélar og málrýni. Lausnirnar verða notaðar af almenningi, fyrirtækjum og stofnunum. Aðferðir til máltækni hafa þó lengi verið þróaðar og það hefur sýnt sig að búnaðurinn hefur náð gríðarlegri dreifingu. Ef íslenskan verður ekki þar á meðal tungumála er mikil hætta á einangrun og stöðnun.

En hvernig virkar öll þessi nýja tækni? Talgreinar breyta töluðu máli í ritmál en mikil tækifæri eru í raddstýrðum samskiptum t.d. við akstur. Þýðingarvélar munu auka framleiðni þýðenda og gera efni á öðrum tungumálum aðgengilegt á íslensku. Talgervlar munu gera fleiri bækur aðgengilegar á hljóðbókaformi. Málrýni aðstoðar við villur í textum. Þá munu sjálfvirk samtals- og fyrirspurnakerfi bæta þjónustu fyrirtækja og stofnana og stuðla að mikilli hagkvæmni. Einnig mun máltækni bæta líf margra einstaklinga sem vegna sjúkdóma eða fötlunar geta ekki talað eða skrifað, hugbúnaður sem gerir þeim það kleift gjörbreytir lífi þeirra.

Það er þó ekki nóg að byggja upp innviði fyrir máltæknina heldur er mikilvægt að ýta undir nýsköpun og tækniþróun í kjölfarið, líkt og áætlunin gerir ráð fyrir. Þróunin er hröð og frumkvæði atvinnulífsins og einstaklinga því mikilvægt svo tæknin fylgi framförum og breytingum sem verða. Á ógnarhraða hefur samfélagið þróast svo að gögn og upplýsingar eru aðgengilegri og mikilvægari en áður. Það er mikilvægt markmið að koma íslenskunni í aukna notkun á öllum sviðum samfélagsins, þar á meðal í tækninni sem verður sífellt stærri partur af tilverunni okkar.

Til að íslenskan sé valkostur verður að fjárfesta í tækniþróun. Við hefðum getað valið glötuð tækifæri og litla sem enga tækni fáanlega á íslenskri tungu, en við völdum að fjárfesta í íslenskunni til að bæta lífsgæði og samkeppnishæfni samfélagsins, tungumálsins og atvinnulífsins. Eins og segir í Íslenskuljóði Þórarins Eldjárns ,,Að gæta hennar gildir hér og nú, það gerir enginn – nema ég og þú.“

Birtist í Morgunblaðinu 16. janúar 2016.