Um þessar mundir eru flokkar landsins að velja fólk á framboðslista sína fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Í Sjálfstæðisflokknum er það gert með margvíslegum hætti; uppstillingu, röðun eða prófkjöri og það sama á við um aðra flokka. Gaman er að fylgjast með því að fjöldi fólks gefur kost á sér og hefur áhuga á að fara í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og beita sér fyrir stefnu hans á sveitarstjórnarstiginu.
Það er mikilvæg áskorun fyrir alla flokka að stilla upp fjölbreyttum framboðslistum. Eitt af því sem fram hefur komið í umræðum síðustu misseri, t.d. í tengslum við metoo-umræðuna er viðhorf til kvenna í stjórnmálum. Alltof lengi hefur verið talað niður til þeirra, þær lítilsvirtar og jafnvel haldið utan ákvarðanatöku og þeirra upplýsinga sem kjörnir fulltrúar þurfa að hafa til að sinna starfi sínu. Þetta viðhorf er sem betur fer að breytast hratt og konur láta ekki bjóða sér þannig framkomu.
Annað sem hefur komið fram er að konur hika þegar kemur að því að bjóða fram starfskrafta sína í stjórnmálum. Það á við um öll stig stjórnmála, störf og hlutverk innan flokka, á sveitarstjórnarstigi, í landsmálum o.s.frv. Svo virðist sem konur þurfi meiri hvatningu til að bjóða fram krafta sína í ábyrgðarstöður. Ég vil því sérstaklega nýta tækifærið og hvetja konur til að láta til sín taka í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þátttaka í bæjarpólitíkinni, eins og hún er stundum kölluð, er tilvalið fyrsta skref í stjórnmálum. Og það er ekki bara fyrsta skref, heldur er það mikilvægt skref og þá ekki síst fyrir bæjarfélögin sjálf. Konur þurfa að viðra skoðanir sínar, bjóða fram krafta sína og umfram allt reynslu sína og þekkingu.
Ég fagna því að Landssamband sjálfstæðiskvenna hafi skipað Bakvarðasveit sjálfstæðiskvenna, sem er skipuð reyndum konum sem hafa tekið þátt í stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og eru tilbúnar að veita ráð, styðja og hvetja konur sem leita vilja til þeirra. Með þessu vill landssambandið auðvelda konum að stíga sín fyrstu skref til að bjóða sig fram. Í framhaldi af því vil ég einnig skora á karlmenn, úr öllum flokkum, til að hvetja konur áfram í stjórnmálaþátttöku.
Stjórnmálin, á öllum stigum, þurfa á því að halda að fjölbreyttar skoðanir komi fram og að ólík sjónarmið fái vægi og umræðu. Það verður aðeins gert með jafnri þátttöku kynjanna. Þannig – og aðeins þannig – náum við að kalla fram það besta í samfélaginu okkar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 25. janúar 2018.