Það er fagnaðarefni að menntamál skuli hafa fengið aukið vægi í stjórnmálaumræðu á síðustu dögum. Ástæðan er þó ekki ánægjuleg, enn ein skýrslan er komin fram sem sýnir að menntakerfið okkar stendur höllum fæti. Niðurstöðurnar staðfesta það sem vitað var, að við hlúum ekki nægilega vel að framþróun í menntakerfinu. Umræður hafa margsinnis farið fram um slaka stöðu Íslands en framför nemenda virðist miða hægt. Krafa um framtíðaráætlun er skýr, áætlun sem leiðir af sér vel hugsaðar breytingar og markmið til árangurs. Við höfum heyrt afsakanir um ágæti eða túlkun kannananna, m.a. að allar Norðurlandaþjóðirnar séu að færast neðar eða að heimurinn sé að breytast vegna tækniframfara. Burtséð frá því hljótum við að geta verið sammála um að við getum ekki unað við núverandi ástand. Öflugt menntakerfi er forsenda lífskjara, fjölbreytts atvinnulífs og hagvaxtar. Menntakerfið okkar má ekki vera eftirbátur annarra landa.
Við þurfum að gera miklu betur þegar kemur að stefnu í menntamálum. Grundvallarfærni í að lesa, reikna og skrifa er grunnur að öllu frekara námi. Næsta kynslóð verður að vera undir það búin að geta fylgt eftir hraðri þróun starfa. Stór hluti þeirra starfa sem þekkjast í dag verður horfinn innan nokkurra ára. Sjaldan hefur því verið mikilvægara að leggja aukna áherslu á grunnfögin. Þeir sem ekki geta t.d. lesið sér til gagns eru líklegri til að hverfa fyrr úr námi. Um leið þarf að auka sveigjanleika, efla sköpunargáfu, samskiptahæfileika og félagshæfni sem eru mikilvægir þættir m.a. til að auka hæfni til að bregðast við breytingum.
Sveigjanleiki er lykilorð í framförum menntakerfisins. Starfsumhverfi kennara er einsleitt, ekki nægilega aðlaðandi, og þá þarf að athuga hvort lenging kennaranámsins hafi frekar latt en hvatt kennaranema til starfsins. Þá verður að skoða hvort inntak kennaranámsins sé eins og best verður á kosið til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem koma á borð kennara. Kerfið á að hvetja kennara til að gera enn betur. Það á koma til móts við aukið álag í kennslustundum og hvetja til skapandi kennslu og nýjunga.
Staða drengja er mikið áhyggjuefni. Það að gengi þeirra í skóla og lestrarkunnáttu hafi farið niður á við og andleg líðan sé verri hlýtur að kalla á stórátak og breytingu í menntun og hvatningu drengja. Til þess þarf fleiri orð en hér er leyft. Það má ekki líta framhjá því að skoða stöðu þeirra í samhengi við sjálfsvíg ungra karlmanna.
Markmiðið á að vera að þeir einstaklingar sem nema og starfa í íslensku menntakerfi hafi forskot og þekkingu til að mæta öllum framtíðarkröfum. Þeir hafi val og hvatningu til að gera betur. Til þess þarf stóráták. Það er búið að ræða vandann oft, nú er lag að leysa hann.
Greinin Menntun til framtíðar birtist í Morgunblaðinu 13. febrúar 2018.