Margaret Thatcher hafði einu sinni á orði að alvöruleiðtogi þyrfti ekki að ganga um og segja öllum að hann væri leiðtogi, meinti að verkin myndu tala ef um alvöruleiðtoga væri að ræða.
Þetta á ágætlega við um stjórnmálin. Þeir eru til sem hafa mótað sér sterka hugmyndafræði, vinna eftir henni og láta verkin tala. Síðan eru þeir sem nota frasa, tala mjög mikið um hvernig þær sjái hlutina fyrir sér, hvernig þeir ætli sér að gera hitt og gera þetta, hvernig þeir sjálfir séu í raun betri en allir aðrir og þannig mætti áfram telja. Það þarf varla að taka fram að þeim síðarnefndu verður alla jafna lítið úr verki, jafnvel þótt þeir látið mikið fyrir sér fara í umræðunni.
Það er til að mynda mjög auðvelt að tala fyrir svokölluðum kerfisbreytingum án þess þó að lyfta litlafingri í því að taka á kerfinu þegar þess þarf eða stuðla að umfangsmiklum breytingum. Það er líka mjög auðvelt að segja sjálfan sig tala fyrir „almannahagsmunum“ en ekki „sérhagsmunum“ og reyna þannig að stilla þeim sem kunna að vera ósammála þér upp við vegg. Enn auðveldara er að tala fyrir frjálslyndi án þess þó að vera sérstaklega frjálslyndur í verki.
Þeir sem tala fyrir hærri sköttum, auknum umsvifum hins opinbera, auknum eftirlitsiðnaði og auknu regluverki geta ekki skreytt sig með frjálslyndisfjöðrum. Jafnvel þótt þeir detti öðru hvoru inn á eitt og eitt mál sem kalla mætti frelsismál, þá fellur það í skuggann af stjórnlyndinu sem þeir boða á hverjum degi.
Frasinn um almannahagsmuni gegn sérhagsmunum er ekki jafn innihaldsríkur og hann er langur. Eru það almannahagsmunir að hækka skatta á tilteknar atvinnugreinar ef ske kynni að þeim gengi vel? Eru það almennt almannahagsmunir að hækka skatta og halda að ríkið geti varið fjármagninu betur en þeir sem á hverjum degi vinna hörðum höndum að því að skapa verðmæti? Eru það almannahagsmunir að auka skriffinnsku, fjölga reglugerðum og auka afskipti ríkisins af daglegu lífi bæði almennings og atvinnulífisins?
Með einföldum hætti mætti skipta stjórnmálaviðhorfum upp í tvennt; annars vegar þá sem vilja háa skatta og aukin umsvif hins opinbera og hins vegar þá sem vilja lækka skatta og minnka umsvif hins opinbera. Þetta er vissulega einföldun því stjórnmálin fjalla um margt annað, en engu að síður er tekist á um þessi grunnatriði með reglubundnum hætti. Þá kemur í ljós hverjir það eru sem eru frjálslyndir í raun og hverjir segjast bara vera frjálslyndir. Og þá kemur líka í ljós hverjir hafa talað í innantómum frösum án nokkurrar innistæðu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu.