Takk!

Fjölmargir mættu í fyrsta sinn á landsfund Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi. Fyrir marga var það óvænt ánægja að geta haft áhrif á stefnu stærsta stjórnmálaflokks landsins, náð eyrum fólks á öllum aldri og fengið tækifæri til að kynnast fólki. Amma mín var þar á meðal, ekki hlutlaus, en líklega meðal elstu nýrra fulltrúa. Hún lýsti helginni sem einni þeirri skemmtilegustu sem hún myndi eftir, 82 ára gömul, enda fannst henni fundurinn bæði fróðlegur og skemmtilegur. Hún var helst svekkt yfir því að hafa ekki fengið að upplifa slíka samkomu fyrr.

Gerum lífið betra var yfirskrift landsfundarins, sem skilur eftir bros og gleði, en ekki síst skýra framtíðarstefnu sjálfstæðismanna sem gerir lífið betra fyrir okkur öll.

Eftir fundinn er mér efst í huga þakklæti fyrir það traust að vera endurkjörin ritari flokksins og að fá tækifæri til að halda áfram í forystu fyrir þennan ótrúlega hóp einstaklinga sem hafa sjálfstæðisstefnuna að leiðarljósi. Yfir þúsund manns sóttu fundinn og tókust á um stefnu og áherslur. Fólk með ólíkan bakgrunn, úr mismunandi stéttum og starfsgreinum, á öllum aldri, konur og karlar.

Fundurinn er öflugasta stjórnmálasamkoma landsins og allir sem tóku þátt í framúrskarandi málefnastarfi eiga hrós skilið. Þar var tekist á um ýmis málefni, oft harkalega en alltaf málefnalega. Það er bæði heilbrigt og gott. Sjálfstæðismenn allir fara út af fundinum sem sterkari heild. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki bara stór flokkur heldur einnig samheldinn. Ályktanir fundarins senda skýr skilaboð út í samfélagið, um opið og frjálst samfélag þar sem allir fá að njóta sín.

Landssamband sjálfstæðiskvenna á hrós skilið fyrir sín störf á fundinum og í aðdraganda hans. Haldinn var sérstakur umræðufundur sjálfstæðisfólks um #metoo-byltinguna. Fundurinn var haldinn fyrir fullum sal. Það var ánægjulegt að meirihluti þátttakenda var karlmenn, þ.m.t. formaður flokksins. Þar var rætt um byltinguna, áhrif hennar og breytt viðhorf.

Ungir sjálfstæðismenn settu einnig mark sitt á fundinn með skipulögðum hætti í málefnastarfinu, öflugum, frjálslyndum tillögum og ekki síst samstarfsvilja til að fá tillögum sínum framgengt í sátt við aðra fundarmenn.

Ég vil þakka sjálfstæðismönnum um allt land fyrir helgina, sjálfstæðisfélögunum fyrir að halda uppi starfi flokksins um allt land en innan þeirra leynist mesta auðlind flokksins. Þar er fólkið sem lætur sig samfélagið varða og hefur valið að skipa sér í sveit Sjálfstæðisflokksins til að fylkja liði í komandi sveitarstjórnarkosningum, til að bæta hag, þjónustu og lífskjör allra Íslendinga. Við ætlum að gera lífið betra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu.

Styrkja framboðið

Það er hægt að styrkja framboðið með því að leggja inn á reikning þess.


Þeir sem styrkja framboðið fá í staðinn gjöf með merki framboðsins á meðan birgðir endast.

Hægt er að styrkja framboði beint með því leggja inná bankareikning framboðsins:  

Kennitala: 620616-0870

Reikningsnúmer: 0133-26-011882

Frambjóðandi má ekki taka við hærri styrkjum frá einstaka fyrirtæki eða lögaðila en sem nemur 400.000 kr. á ári. Birta ber nöfn allra fyrirtækja/lögaðila sem styrkja kosningabaráttu frambjóðandans.

Frambjóðandi má ekki taka við hærri styrkjum frá einstaklingum en sem nemur 400.000 kr. á ári. Birta skal nöfn einstaklinga sem veitt hafa styrki sem metnir eru á meira en 300.000 kr. til kosningabaráttunnar.