Uppbygging innviða, uppbygging heilbrigðisþjónustu, öflugri rekstur hins opinbera og lækkun skatta. Allt eru þetta einkenni fjármálaáætlunar næstu fimm ára sem ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku og þá er listinn ekki tæmdur. Eitt mikilvægasta atriðið í fjármálaáætluninni er lækkun skulda hins opinbera. Hún hefur gengið hraðar en markmið voru um, það hefur leitt af sér lægri vaxtagjöld og skapar þannig svigrúm til að nýta fjármagn til annarra og mikilvægari verkefna.
Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er að sjálfsögðu ekki yfir gagnrýni hafin og það er eðlilegt að um hana sé tekist á eins og önnur verk ríkisstjórnarinnar. Hvort sem um er að ræða gagnrýni frá stjórnarandstöðu um að menn víki frá ábyrgri hagstjórn eða málefnalegri gagnrýni um einstaka þætti áætlunarinnar. Þá er þetta allt liður í því að búa í lýðræðisþjóðfélagi þar sem öflug samfélagsumræða á sér stað. Flestir sjá þó að efnahagsstaða landsins er kraftaverki líkast miðað við það hvernig staðan var fyrir tæpum áratug. Staða ríkissjóðs hefur ekki verið traustari um árabil og landsframleiðslan aldrei hærri.
Og af hverju er staðan svona góð? Jú, af því að forystumenn þeirra flokka sem setið hafa í ríkisstjórn frá árinu 2013 hafa sammælst um að forgangsraða rétt, sýna ábyrgð og kænsku við stjórn ríkisfjármála. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú setið í ríkisstjórn samfellt í fimm ár. Allan þann tíma hefur verið lagður grunnur að öflugri hagstjórn hér á landi. Eðli málsins samkvæmt hefur það verið gert í góðu samstarfi og með stuðningi samstarfsflokkanna. Í viðræðum um stjórnarsamstarf hafa þeir flokkar sem myndað hafa ríkisstjórn á þessum tíma sammælst um mikilvægi þess að skapa hér heilbrigðan grundvöll fyrir framtíðaruppbyggingu hagkerfisins.
Aukin áhersla á geðheilbrigðismál, uppbygging í vegamálum, lægri tekjuskattur og lægra tryggingagjald eru dæmi úr fjármálaáætlun sem einkennast ekki af bjartsýni eða óskhyggju, heldur skynsemi. Hlutverk ríkisins er að styðja við grundvallarþætti samfélagsins, menntakerfið, heilbrigðiskerfið og öryggi landsmanna auk þess að taka þátt í innviðauppbyggingu á borð við samgöngumannvirki. Allt eru þetta þættir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á að sé sinnt vel og við það hefur verið staðið. Á sama tíma hefur verið unnið hörðum höndum að því að greiða niður skuldir ríkisins. Fjármagn skattgreiðenda er betur nýtt í öflug og nauðsynleg samfélagsverkefni frekar en vaxtagreiðslur. Á næsta ári munu vaxtagjöld ríkissjóðs þó nema yfir 70 milljörðum króna, þannig að enn eigum við mikilvægt verkefni fyrir höndum.
Það skiptir því máli hverjir stjórna. Ábyrg hagstjórn er ekki sjálfgefin.
Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu.