Mig langar að heiðra minningu móður minnar sem hefði orðið 59 ára í dag, 1. maí, með því að óska öllum til hamingju með að ótrúlegar réttarbætur hafa átt sér stað í málefnum einstaklinga með fötlun. Um leið langar mig til að segja frá því hvernig NPA eða notendastýrð persónuleg aðstoð gefur einstaklingum eins og systur minni val og frelsi.
Í síðustu viku var NPA lögfest á Alþingi en móðir mín, Kristín Steinarsdóttir, barðist ásamt föður mínum um árabil fyrir því að systir mín sem er langveik myndi fá að lifa sjálfstæðu lífi líkt og við hin systkinin gerum svo auðveldlega. Fyrir átta árum var byrjað að vinna að því að Nína Kristín systir mín skyldi fá þá þjónustu sem hentaði henni persónulega svo hún gæti sjálf tekið ákvarðanir um sitt eigið líf. Á þeim tíma hafði mikilvægt baráttufólk eins og Freyja Haraldsdóttir vakið athygli á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf sem NPA byggist á og að sú aðstoð myndi skapa þeim einstaklingum sem glíma við fötlun frelsi og val.
Baráttan fyrir þessari aðstoð hefur verið löng og ströng. Val um búsetu og lífsstíl fyrir einstaklinga með fatlanir hefur verið mjög takmarkað. Nú hefur loksins verið lögfest þjónusta sem veitir einstaklingum fjölmörg sjálfsögð tækifæri sem áður stóðu ekki til boða.
Þeir sem voru svo heppnir að fá samning í tilraunaskyni hafa nú kynnst því hvernig er að eiga val. Val um hvernig aðstoðin er skipulögð og hvernig hún fer fram, val um hvenær viðkomandi getur farið í sturtu, hvenær viðkomandi vill fara að sofa og vakna, fara út á lífið, út að borða, í göngutúr og svona mætti lengi telja. Val um sjálfsagða hluti sem fæst okkar geta ímyndað sér að þurfa að standa frammi fyrir.
NPA gefur viðkomandi einstaklingum færi á að vera eins og aðrir án þess að þurfa að reiða sig á sína allra nánustu um aðstoð. Viðkomandi fá tækifæri til að ráða sér eftir sínu höfði, vera sjálfstæð og taka fullan þátt í þjóðfélaginu. Þeir geta ferðast um á eigin bíl, eldað mat, farið í matarboð, í vinnu og út að hreyfa sig. Allt á sínum eigin forsendum. Aðstoðarfólkið er ekki að stýra lífi þeirra, heldur eru þeir að lifa lífi sínu og annast sig sjálfir með aðstoð.
Notendastýrð persónuleg aðstoð snýst einfaldlega um frelsi þessara einstaklinga, frelsi til að lifa lífi sem við hin tökum sem sjálfsögðum hlut á hverjum degi.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 1. maí.