Í Reykjavík eru nú tæplega 2.000 börn á biðlista eftir leikskólaplássi vegna þess að núverandi meirihluti í borginni hefur vanrækt starfsemi og uppbyggingu leikskóla. Á sama tíma þurfa foreldrar þessara barna að taka ákvörðun um það hvort þeirra ætlar að vera lengur heima og ekki á vinnumarkaði. Í flestum tilvikum er það konan á heimilinu sem víkur lengur af vinnumarkaði. Vanrækslan á þessu mikilvæga málefni barnafjölskyldna leiðir því til ójafnréttis.
Það er jafnréttismál að sveitarfélög sinni þeirri grunnskyldu að bjóða fólki leikskólapláss á ásættanlegum tíma. Öll gylliboð um að lækka leikskólagjöld eða jafnvel afnema þau eru einskis virði þegar þjónustan er léleg, ósveigjanleg og jafnvel ekki í boði yfirhöfuð. Kostnaðurinn við það að geta ekki hafið störf á ný, að þurfa að taka börnin oft fyrr heim eða að velja sér önnur mun dýrari úrræði sem borgarsjóður greiðir ekki niður er langt umfram þann kostnað sem hlýst af leikskólaplássi. Nú rétt fyrir kosningar hefur meirihlutinn í Reykjavík loksins sett málið á dagskrá. Það er þó fullseint og langt frá því að vera trúverðugt.
Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að hækka greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi og er gert ráð fyrir að framlög til málaflokksins verði 1.800 milljónum króna hærri eftir fjögur ár. Markmiðið er að draga úr röskun á tekjum foreldra í fæðingarorlofi. Að foreldrar geti nýtt sér fæðingarorlofið til að eiga dýrmætar samverustundir með barni sínu án þess að tapa of miklum tekjum er jafnréttismál en dugar skammt þegar ekkert stendur til boða að því loknu.
Sveitarfélögin verða að koma til móts við foreldra með leikskóla- eða dagvistunarplássi fyrir börnin að fæðingarorlofi loknu. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að öll börn fái leikskólapláss við 18 mánaða aldur, að auka sjálfstæði leikskólanna, að fjölga dagforeldrum með því að bjóða aðstöðu og niðurgreiðslu og síðast en ekki síst að bæta hag þeirra sem starfa á leikskólum. Þetta skiptir máli.
Þetta er jafnréttismál þar sem Reykjavík á að vera í forystuhlutverki. Ungt fjölskyldufólk á skilið betri þjónustu en því hefur verið veitt hingað til. Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem mun setja þetta mál í forgang og framkvæma þær breytingar sem nauðsynlegar eru. Þannig breytum við borginni til hins betra.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. maí.