„Þetta íslenska lið gerði eiginlega ekki neitt.“ Einmitt. Messi hefur greinilega ekki lært neitt af hinum tapsára kollega sínum, Ronaldo, á EM í fótbolta sumarið 2016.
Þetta lið gerði nefnilega mjög margt í þessum leik á laugardaginn. Fyrir utan að skora mark, verja víti og pakka í stórkostlega vörn sem Messi og félagar réðu einfaldlega ekkert við gladdi íslenska karlalandsliðið í fótbolta þjóð sína og sameinaði um allt land – og erlendis. Íslendingar fylltu bari á Spáni og í Washington. Fólk sem vissi ekki að það hefði nokkurn áhuga á knattspyrnu stóð sig að því að öskra sig hást á sjónvarpsskjáinn, fagna stórkostlega þegar markið kom og varpa öndinni léttar í hvert sinn sem skot geigaði eða Hannes varði.
En hver er lykillinn á bak við þetta? Á bak við þennan árangur? Einhver sagði að okkur langaði bara meira til að vinna, en vilji er ekki alveg allt sem þarf. Hæfileikar, þolinmæði, kraftur og úthald er nauðsynlegt. Samskipti og samstilling, að geta róið í sömu átt og skipt með sér verkum þannig að hver og einn blómstri í sínu hlutverki skiptir líka máli. Góð leiðsögn, hvatning fólksins í kring, skynsamleg gagnrýni og geta til að taka henni og bæta sig er nauðsynleg. Þetta allt má heimfæra upp á flest það sem við gerum í lífinu.
Erlendir fjölmiðlar fá ekki nóg af íslensku hetjunum, sögunum af tannlækninum úr Eyjum og öllu því. Ég er ekkert að gera lítið úr ýmiskonar landkynningarverkefnum sem farið hefur verið í í gegnum tíðina, en enginn hefði getað skipulagt öflugra átak en þetta. Á EM 2016 tvöfaldaðist fjöldi leitarfyrirspurna á Google þar sem Ísland kom fyrir og hafði þá ekki verið meiri síðan Eyjafjallajökull gaus 2010. Það er dálítið viðeigandi, enda er þetta lið út af fyrir sig eins og náttúruafl. Þannig getur framganga íslenska liðsins ekki einungis glatt okkur, sameinað og gert okkur stolt heldur haft raunveruleg áhrif á rekstur þjóðarbúsins með því að vekja áhuga fólks um allan heim á Íslandi.
En þetta er bara ein hlið á þessu öllu. Það sem þessir strákar og stelpur í landsliðunum okkar kenna okkur er að ekkert er ómögulegt og eru þannig frábærar fyrirmyndir. Það á að vera ómögulegt fyrir örþjóð eins og okkur að eiga landslið sem keppa við þá bestu og standa sig vel í fótbolta, handbolta og öðrum íþróttagreinum. En þetta snýst um það að setja sér markmið og trúa því að við höfum það sem til þarf. Maður kemst nefnilega sjaldan lengra en maður ætlar sér.
Og Messi getur alveg reynt að telja sér trú um að íslenska liðið geri ekki neitt. Við vitum betur. Við elskum þetta lið og styðjum það alla leið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. júní 2018.