Síðustu daga hefur verið umfjöllun um mál manns sem ekki fær inngöngu í lögreglunám við Háskólann á Akureyri vegna þess að hann hefur lokið iðnnámi en ekki bóknámi. Þetta tilvik er dæmi um það hversu iðnnám á Íslandi er lítils metið. Á sama tíma er talað um nauðsyn þess að fjölga útskrifuðum nemendum í iðn-, raun- og tæknigreinum. Það skýtur skökku við að um leið og við tölum fyrir eflingu iðn- og verknáms þá er allt kerfið mjög tregt til að stíga raunveruleg skref til breytinga.
Lögreglunáminu var breytt árið 2016 þegar það var fært upp á háskólastig. Menntun lögreglumanna er mikilvægur þáttur í bættri löggæslu og er námið nú sambærilegt við menntun lögreglu í öðrum Evrópuríkjum. Þættir eins og netöryggi, vöxtur skipulagðrar glæpastarfsemi, peningaþvætti og vaxandi hryðjuverkaógn eru þær hættur sem Evrópuríki líta helst til og kalla á aukna þekkingu og þjálfun lögreglumanna. Að sama skapi þarf menntunin að svara kalli tímans hverju sinni. Þrátt fyrir að hafa gert miklar breytingar á náminu verðum við að vera tilbúin að meta hvort það þurfi að gera aðrar breytingar samhliða.
Mikill skortur er á nemendum í verk- og iðnnámi. Það er ekki einungis vandamál hér á landi heldur alþjóðlegt. Ein ástæða þess er sú að við leggjum gríðarlega mikið upp úr því að einstaklingar ljúki bóknámi, sem felst í stúdentsprófi til að bæta við sig menntun. Aðilar sem eru orðnir meistarar í sinni iðngrein hafa lokið iðnnámi (sem er að miklum hluta bóklegt), samningstíma, jafnvel sveinsprófi, meistaraskóla og fengið meistararéttindi eru samkvæmt kerfinu ekki til þess bærir að mennta sig frekar þar sem þeir hafa ekki lokið stúdentsprófi. Það hlýtur hver maður að sjá að svona getur þetta ekki verið.
Hér á sér stað kerfisvandi. Megináhersla kerfisins hefur sem fyrr segir verið á bóknám. Þar af leiðir að við sjáum fjölda fólks útskrifast úr bóklegu háskólanámi. Stór hluti þeirra sem útskrifast úr bóklegu háskólanámi mun í framtíðinni starfa hjá hinu opinbera. Sú þróun stendur ekki undir sér til lengri tíma. Því þurfum við aukna fjölbreytni í menntun og fleiri tækifæri fyrir einstaklinga til að bæta við sig menntun.
Flestir þeirra sem ljúka iðn- og tækninámi verða sjálfstæðir atvinnurekendur. Þetta eru upp til hópa hörkuduglegir einstaklingar sem eiga ekki að þurfa að þola það að kerfið setji þeim stólinn fyrir dyrnar. Við eigum að ýta undir fjölbreytt val í menntakerfinu okkar og hjálpa öllum einstaklingum að finna sér þann farveg í lífinu sem hentar þeim best. Það þarf að breyta kerfinu með þeim hætti að þeir sem lokið hafa iðnnámi eigi þess kost að bæta við sig námi. Til þess þarf kerfið að þora að gera breytingar, ekki bara tala um það án þess að nokkuð gerist.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. júní 2018