Það er nauðsynlegt að hugsa reglulega um hlutverk stofnana ríkisins, hvort fjármagn sé vel nýtt og hvort starfsemin eigi yfir höfuð að eiga vera á vegum ríkisins.
Ríkisútvarpið er ein þessara stofnana. Samkvæmt lögum er markmið þess að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Því er ætlað að leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
Það er ljóst að Ríkisútvarpið sinnir þessu hlutverki skv. lögum. En það gera aðrir fjölmiðlar einnig. Aðrar sjónvarps- og útvarpsstöðvar, stórar og smáar, framleiða vandað íslenskt efni, miðla upplýsingum, sinna afþreyingarhlutverki og þannig mætti áfram telja. Það sama gildir um prent- og vefmiðla. Hraðar tæknibreytingar gefa okkur enn meiri ástæðu til að endurskoða hlutverk ríkisfjölmiðils. Starfsemi Ríkisútvarpsins, líkt og annarra, þarf að breytast í takt við þær.
Aðrir fjölmiðlar, sem ekki eru kostaðir af ríkinu, hafa í lengri tíma bent á erfitt rekstrarumhverfi. Samkeppnisstaðan verður ekki betri þegar ríkisfjölmiðillinn fær um fjóra milljarða króna á ári í útvarpsgjald og rúma tvo milljarða í auglýsingatekjur. Frjálsir fjölmiðlar eru að keppa um sömu auglýsingatekjur við Ríkisútvarpið, sem er þó með fjögurra milljarða króna forskot frá skattgreiðendum. Nýlega var fjallað um framgöngu ríkisfjölmiðilsins á auglýsingamarkaði í aðdraganda HM í knattspyrnu. Það er ljóst að fjölmiðlar í einkarekstri hafa ekki sömu burði til að keppa á þeim markaði óbreyttum.
Frjálsir fjölmiðlar eru grundvöllur fjölbreyttrar og gagnrýninnar umræðu í samfélaginu. Þeir eru vettvangur skoðanaskipta, miðlun upplýsinga og fjölbreytt flóra íslenskra fjölmiðla sem sinnir einnig því mikilvæga hlutverki að vernda íslenska tungu. Nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla skilaði í byrjun þessa árs tillögum um það hvernig bæta megi rekstrarumhverfi fjölmiðla þannig að þeir geti sinnt hlutverki sínu með öflugri hætti. Ein af þessum tillögum var sú að Ríkisútvarpið myndi víkja af auglýsingamarkaði. Það er tillaga sem þarf að skoða af fullri alvöru.
Allir ofangreindir þættir leiða til þess að rétt er að ræða af yfirvegun starfsemi og rekstur Ríkisútvarpsins. Það er hægt að gera án þess að leggjast í skotgrafir og stjórnmálamenn eiga líka að geta haft skoðun á rekstri félagsins án þess að verða teknir sérstaklega fyrir. Hér er ekki lagt til að RÚV verði lagt niður í núverandi mynd, en það má vel velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að reka öflugan fjölmiðil fyrir fjóra milljarða á ári og leyfa einkareknum fjölmiðlum að keppa um auglýsingatekjur á sanngjörnum og eðlilegum markaði.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. júlí 2018