Ríkislandið sem óx og óx

Um liðna helgi gekk ég eina fjöl­förn­ustu göngu­leið á Íslandi, Lauga­veg­inn. Í Landmannlaugum þar sem gang­an hefst var margt fólk sem var ým­ist að leggja af stað í göngu­ferðir eða að tjalda til að njóta staðar­ins. Á leiðinni breytt­ist nátt­úr­an hratt, fyrst um sinn er auðvelt að gleyma sér í lita­dýrð svæðis­ins og gufustrók­un­um sem víða stíga upp úr hvera­svæðinu í kring­um göngu­leiðina. Þegar gengið er áfram taka við snjó­skafl­ar og svart­ir sand­ar á víxl í brött­um brekk­um. Seinna taka við græn­ar hlíðar og fjöll og bæði Mýr­dals- og Eyja­fjalla­jökull blasa við. Mis­vatns­mikl­ar ár sem þarf að vaða og ein­stök gljúf­ur og mold­ar­stíg­ar niður í nátt­úrup­ara­dís­ina sem Þórsmörk er.

Á svona göngu leiðir maður hug­ann að því hversu mögnuð ís­lensk nátt­úra er enda laðar hún að sér millj­ón­ir ferðamanna til að berja hana aug­um. Það kom mér nokkuð á óvart hversu ósnort­in nátt­úr­an er á þess­ari göngu­leið miðað við fjöld­ann sem fer hana á hverju sumri. Þó eru fjöl­marg­ar áskor­an­ir sem blasa við. Spurn­ing­ar eins og hver ber ábyrgðina á land­inu, hvernig við erum að ganga um landið og hvað þarf að gera til að ráða við ágang­inn án þess að nátt­úr­an láti á sjá?

Það leiðir hug­ann að frétt­um um óbyggðanefnd og þann gríðarlega kostnað og tíma sem farið hef­ur í verk­efni henn­ar, langt um­fram áætlan­ir, hvort sem er áætlað heildarum­fang eða ár­leg framúr­keyrsla fjár­heim­ilda. Verk­efni nefnd­ar­inn­ar er að fá úr skorið hvar mörk þjóðlendu liggja, hvaða lönd til­heyri rík­inu á há­lend­inu og hvaða lönd séu einka­lönd í byggð. For­saga nefnd­ar­inn­ar er löng en hún teyg­ir anga sína aft­ur á miðja síðustu öld þegar upp risu deil­ur um af­not og eign­ar­rétt á há­lend­is­svæðum. Heild­ar­kostnaður vegna nefnd­ar­inn­ar, um tveir millj­arðar króna, er marg­falt meiri en gert var ráð fyr­ir í upp­hafi enda átti nefnd­in að ljúka störf­um árið 2007.

Marg­ir hafa haft efa­semd­ir um störf nefnd­ar­inn­ar og þessa stefnu. Það má setja stórt spurn­ing­ar­merki við þá stefnu rík­is­ins að kosta til hundruðum millj­óna við að ná meira landi und­ir eign­ar­hald og ábyrgð rík­is­sjóðs, að fram­kvæma þá stefnu á óheimilum yf­ir­drætti og að ná á sama tíma ekki utan um það stóra verk­efni sem verndun og varðveisla ís­lenskr­ar nátt­úru er – á tím­um sem rúm­lega 2,5 millj­ón­ir ferðamanna sækja okk­ur heim á ári.

Ef til vill færi bet­ur á því að ríkið ein­beitti sér að því að sinna þeim verk­efn­um sem nú þegar fylgja þeirri ábyrgð sem felst í því að eiga land. Þar liggja nú þegar fjöl­marg­ar áskor­an­ir og þeim fer ekki fækk­andi á því landi sem ríkið á nú þegar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. júlí 2018.