Um liðna helgi gekk ég eina fjölförnustu gönguleið á Íslandi, Laugaveginn. Í Landmannlaugum þar sem gangan hefst var margt fólk sem var ýmist að leggja af stað í gönguferðir eða að tjalda til að njóta staðarins. Á leiðinni breyttist náttúran hratt, fyrst um sinn er auðvelt að gleyma sér í litadýrð svæðisins og gufustrókunum sem víða stíga upp úr hverasvæðinu í kringum gönguleiðina. Þegar gengið er áfram taka við snjóskaflar og svartir sandar á víxl í bröttum brekkum. Seinna taka við grænar hlíðar og fjöll og bæði Mýrdals- og Eyjafjallajökull blasa við. Misvatnsmiklar ár sem þarf að vaða og einstök gljúfur og moldarstígar niður í náttúruparadísina sem Þórsmörk er.
Á svona göngu leiðir maður hugann að því hversu mögnuð íslensk náttúra er enda laðar hún að sér milljónir ferðamanna til að berja hana augum. Það kom mér nokkuð á óvart hversu ósnortin náttúran er á þessari gönguleið miðað við fjöldann sem fer hana á hverju sumri. Þó eru fjölmargar áskoranir sem blasa við. Spurningar eins og hver ber ábyrgðina á landinu, hvernig við erum að ganga um landið og hvað þarf að gera til að ráða við áganginn án þess að náttúran láti á sjá?
Það leiðir hugann að fréttum um óbyggðanefnd og þann gríðarlega kostnað og tíma sem farið hefur í verkefni hennar, langt umfram áætlanir, hvort sem er áætlað heildarumfang eða árleg framúrkeyrsla fjárheimilda. Verkefni nefndarinnar er að fá úr skorið hvar mörk þjóðlendu liggja, hvaða lönd tilheyri ríkinu á hálendinu og hvaða lönd séu einkalönd í byggð. Forsaga nefndarinnar er löng en hún teygir anga sína aftur á miðja síðustu öld þegar upp risu deilur um afnot og eignarrétt á hálendissvæðum. Heildarkostnaður vegna nefndarinnar, um tveir milljarðar króna, er margfalt meiri en gert var ráð fyrir í upphafi enda átti nefndin að ljúka störfum árið 2007.
Margir hafa haft efasemdir um störf nefndarinnar og þessa stefnu. Það má setja stórt spurningarmerki við þá stefnu ríkisins að kosta til hundruðum milljóna við að ná meira landi undir eignarhald og ábyrgð ríkissjóðs, að framkvæma þá stefnu á óheimilum yfirdrætti og að ná á sama tíma ekki utan um það stóra verkefni sem verndun og varðveisla íslenskrar náttúru er – á tímum sem rúmlega 2,5 milljónir ferðamanna sækja okkur heim á ári.
Ef til vill færi betur á því að ríkið einbeitti sér að því að sinna þeim verkefnum sem nú þegar fylgja þeirri ábyrgð sem felst í því að eiga land. Þar liggja nú þegar fjölmargar áskoranir og þeim fer ekki fækkandi á því landi sem ríkið á nú þegar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. júlí 2018.