Enn einu sinni berast fréttir af fjölda barna sem ekki fá pláss á leikskóla í haust hjá Reykjavíkurborg. Að þessu sinni eru það 128 börn sem ekki fengu leikskólapláss þrátt fyrir að hafa fengið loforð um pláss. Flestir foreldrar þeirra barna höfðu þó gert ráðstafanir, bæði varðandi vinnu og tekið börn frá dagforeldrum hafi þau verið komin þangað. Þessu til viðbótar eru enn fleiri á biðlista sem ekki hafa enn fengið loforð um pláss.
Þann 12. maí, nokkrum dögum fyrir kosningar, skrifaði Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, grein á vef Samfylkingarinnar þar sem hann setti út á gagnrýni sjálfstæðismanna á leikskólamál borgarinnar. Skúli sagði í grein sinni að innritun á leikskóla borgarinnar gengi vel og allt stefndi í að öll börn frá 18 mánaða aldri fengju boð um að komast inn á leikskóla borgarinnar í haust. Nú hefur komið á daginn að ekkert var að marka þessi orð.
Vandinn er mikill þó að borgarfulltrúar í meirihlutanum keppist við að segja að segja aðra sögu. Margir foreldrar þurfa að taka ákvörðun um hvort þeirra eigi að vera lengur heima og þannig frá vinnumarkaði, á meðan aðrir fá pláss hjá dagforeldrum sem að sama skapi felur í sér meiri kostnað fyrir foreldra.
Ólíkt öðrum sveitarfélögum greiðir Reykjavíkurborg minna með hverju barni til sjálfstætt starfandi leikskóla. Með því er valfrelsi skert. Í stuttu máli er það stefna Reykjavíkurborgar að eingöngu skuli starfa borgarreknir leikskólar, þó að vitað sé að þeir geti ekki sinnt þeim fjölda sem þarf pláss. Það er sérkennileg forgangsröðun hjá borginni að leggja alla áherslu á borgarrekna leikskóla sem anna ekki eftirspurn og ætlast til þess að foreldrar sætti sig við það að þetta sé örlítið betra en í fyrra
Nú kjósa einnig sumir foreldrar að hafa börnin sín hjá dagforeldrum lengur. Fyrir sum börn er það hentugra og fyrir aðra veitir það einnig meiri stöðugleika en margra mánaða óvissa með leikskólapláss. Það er því sérkennilegt að borgin grípi ekki til aðgerða til að auðvelda foreldrum að nota dagforeldra sem úrræði með því að bjóða upp á sömu niðurgreiðslu til dagforeldra.
Allt framangreint minnir okkur á það að stjórnmálamenn þurfa að bjóða fólki upp á val þar sem í boði eru margar lausnir. Öll viljum við hafa sem mest um það að segja hvernig við högum lífi okkar. Með því að jafna tækifæri leikskóla og dagforeldra er bæði verið að stuðla að jafnræði og efla rekstrargrundvöll dagforeldra til að efla þjónustu sína og koma til móts við þá eftirspurn sem er eftir dagvistun. Lausnin við vandanum er aukið valfrelsi, ekki varðstaða um úrelta stjórnmálastefnu vinstriflokkanna sem alltaf bitnar á íbúum borgarinnar – og í þessu tilviki börnum þeirra.