Alþingi kemur saman í dag. Komandi þingvetur er spennandi en jafnframt blasa við stórar áskoranir um að halda við þeim efnahagsstöðugleika sem náðst hefur á liðnum árum. Sá árangur er ekki sjálfsagður. Kaupmáttur er meiri en hann var 2007, laun eru há, verðbólga er lág og atvinnuleysi er lítið. Þennan árangur þarf að verja en honum stendur ógn af stöðunni á vinnumarkaði og gegndarlausum útgjöldum hins opinbera. Á sama tíma viljum við gera betur á svo mörgum sviðum, byggja upp grunnstoðir samfélagsins, lækka skattbyrði og skapa umhverfi þar sem Íslendingar geta sótt fram.
Ríkisstjórnin einsetti sér að einhenda sér í þau verkefni sem koma Íslandi í fremstu röð og búa þannig um hnútana að hér verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna. Það eru stór markmið. Til að koma Íslandi í fremstu röð þarf að hafa framtíðarsýn. Því miður snúast stjórnmál allt of oft um kerfisbundin vandamál dagsins og því gefa stjórnmálamenn sér of lítinn tíma til að huga að framtíðinni. Það er stundum sagt að stjórnmálamenn hugsi alla hluti í kjörtímabilum – og því miður kann það að vera rétt. Á því eru þó undantekningar eins og þegar ríkisstjórnin kynnti langtímaáætlun í loftslagsmálum í vikunni. Það hefur fjármálaráðherra einnig gert með því að leggja áherslu á ríkisfjármálaáætlun til lengri tíma.
Ríkisútgjöldin eru einn þeirra þátta sem þarf að huga að til lengri tíma. Til að vera í fremstu röð þurfum við að skipuleggja ríkisfjármálin til lengri tíma, hvort sem litið er til tekna eða útgjalda. Til eru þeir stjórnmálamenn sem veigra sér hvergi í kröfum um aukin ríkisútgjöld, menn tala um að heilu stofnanirnar séu „fjársveltar“ og aldrei er skortur á verkefnum sem þurfa aukið fjármagn eða verkefnum sem ríkið ætti að sjá um. Stjórnmálamenn eiga það til að líta á vasa skattgreiðenda sem óþrjótandi uppsprettu fjármagns. Það fjármagn á í nær öllum tilvikum að nýta til að stækka ríkið með einum eða öðrum hætti. Við verðum þó að horfast í augu við það að sum mál verða ekki leyst með auknum útgjöldum, auknu eftirliti eða fleiri reglum.
Við þurfum líka að huga að mikilvægum kerfisbreytingum og finna leiðir til að nýta fjármagnið betur. Ríkið gerir það ekki eitt og sér – og reyndar síst – heldur þarf til frjóa hugsun einkaframtaks og frelsis. Ríkisvaldið mun ekki stefna Íslandi í fremstu röð þjóða. Þangað komumst við með því að gefa einkaaðilum svigrúm til að hefja rekstur, koma fram með hugmyndir, taka áhættu og standa upp aftur þó svo að þeim mistakist. Við vöndum okkur með því að sýna ábyrgð í ríkisfjármálum, með því að halda aftur af útþenslu ríkisins og með því að skapa einkaaðilum svigrúm til að starfa. Þannig skipum við Íslandi í fremstu röð.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. september 2018