Vöndum okkur

Alþingi kem­ur sam­an í dag. Kom­andi þing­vet­ur er spenn­andi en jafn­framt blasa við stór­ar áskor­an­ir um að halda við þeim efna­hags­stöðug­leika sem náðst hef­ur á liðnum árum. Sá ár­ang­ur er ekki sjálf­sagður. Kaup­mátt­ur er meiri en hann var 2007, laun eru há, verðbólga er lág og at­vinnu­leysi er lítið. Þenn­an ár­ang­ur þarf að verja en hon­um stend­ur ógn af stöðunni á vinnu­markaði og gegnd­ar­laus­um út­gjöld­um hins op­in­bera. Á sama tíma vilj­um við gera bet­ur á svo mörg­um sviðum, byggja upp grunnstoðir sam­fé­lags­ins, lækka skatt­byrði og skapa um­hverfi þar sem Íslend­ing­ar geta sótt fram.

Rík­is­stjórn­in ein­setti sér að ein­henda sér í þau verk­efni sem koma Íslandi í fremstu röð og búa þannig um hnút­ana að hér verði gott að lifa og starfa fyr­ir unga sem aldna. Það eru stór mark­mið. Til að koma Íslandi í fremstu röð þarf að hafa framtíðar­sýn. Því miður snú­ast stjórn­mál allt of oft um kerf­is­bund­in vanda­mál dags­ins og því gefa stjórn­mála­menn sér of lít­inn tíma til að huga að framtíðinni. Það er stund­um sagt að stjórn­mála­menn hugsi alla hluti í kjör­tíma­bil­um – og því miður kann það að vera rétt. Á því eru þó und­an­tekn­ing­ar eins og þegar rík­is­stjórn­in kynnti lang­tíma­áætl­un í lofts­lags­mál­um í vik­unni. Það hef­ur fjár­málaráðherra einnig gert með því að leggja áherslu á rík­is­fjár­mála­áætl­un til lengri tíma.

Rík­is­út­gjöld­in eru einn þeirra þátta sem þarf að huga að til lengri tíma. Til að vera í fremstu röð þurf­um við að skipu­leggja rík­is­fjár­mál­in til lengri tíma, hvort sem litið er til tekna eða út­gjalda. Til eru þeir stjórn­mála­menn sem veigra sér hvergi í kröf­um um auk­in rík­is­út­gjöld, menn tala um að heilu stofn­an­irn­ar séu „fjár­svelt­ar“ og aldrei er skort­ur á verk­efn­um sem þurfa aukið fjár­magn eða verk­efn­um sem ríkið ætti að sjá um. Stjórn­mála­menn eiga það til að líta á vasa skatt­greiðenda sem óþrjót­andi upp­sprettu fjár­magns. Það fjár­magn á í nær öll­um til­vik­um að nýta til að stækka ríkið með ein­um eða öðrum hætti. Við verðum þó að horf­ast í augu við það að sum mál verða ekki leyst með aukn­um út­gjöld­um, auknu eft­ir­liti eða fleiri regl­um.

Við þurf­um líka að huga að mik­il­væg­um kerf­is­breyt­ing­um og finna leiðir til að nýta fjár­magnið bet­ur. Ríkið ger­ir það ekki eitt og sér – og reynd­ar síst – held­ur þarf til frjóa hugs­un einkafram­taks og frels­is. Rík­is­valdið mun ekki stefna Íslandi í fremstu röð þjóða. Þangað kom­umst við með því að gefa einkaaðilum svig­rúm til að hefja rekst­ur, koma fram með hug­mynd­ir, taka áhættu og standa upp aft­ur þó svo að þeim mistak­ist. Við vönd­um okk­ur með því að sýna ábyrgð í rík­is­fjár­mál­um, með því að halda aft­ur af útþenslu rík­is­ins og með því að skapa einkaaðilum svig­rúm til að starfa. Þannig skip­um við Íslandi í fremstu röð.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. september 2018