Fjárlög: Öfundsverð staða

ræða í umræðum um Fjárlög 2019

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga þegar staða þjóðarbúsins er einstaklega góð. Staða ríkissjóðs hefur ekki verið traustari um árabil og landsframleiðsla hefur aldrei verið meiri.

Staðan er í raun ótrúleg, eins og hér hefur verið komið inn á, þegar aðeins tíu ár eru liðin frá efnahagskreppunni. Stærsti árangurinn sem við sjáum svo skýrt og blasir við þegar staðan er skoðuð er hve skuldastaða ríkissjóðs hefur lækkað á liðnum árum. Skuldirnar og lífeyrisskuldbindingarnar hafa lækkað um 800 milljarða.

Oft er erfitt að gera sér í hugarlund hve stórar svona fjárhæðir og upphæðir eru í raun og veru. Til að setja þetta í eitthvert samhengi eru 800 milljarðar um 20 sinnum sú upphæð sem við ætlum að verja til vegamála á næsta ári, rúmlega hundraðföld sú upphæð sem verja á til nýbyggingar Landspítalans, áttföld sú upphæð sem varið er til sjúkrahúsþjónustu á næsta ári og fyrir þetta fjármagn mætti einnig að kaupa 150 björgunarþyrlur. Þannig mætti áfram telja.

Vissulega er þetta bara leikur að tölum en stundum er ágætt að setja hlutina í samhengi til að átta sig betur á stöðunni til að mæla þann árangur sem náðst hefur. Vegna áherslu stjórnvalda á að greiða niður skuldir hefur Ísland á mjög fáum árum komist í einstaka stöðu. Við greiðum nú t.d. 26 milljörðum minna í vaxtagjöld árið 2019 en árið 2011. Það eru örfá ár. Fyrir þá upphæð mætti t.d. kaupa fimm björgunarþyrlur svo við höldum áfram að leika okkur með tölur því að risavaxnar krónutölur getur oft verið erfitt að setja í samhengi.

Aðalatriðið er hins vegar að fjármagni sem áður var nýtt til að greiða vexti og viðhalda skuldum er nú hægt að ráðstafa til að byggja upp og styrkja þau verkefni sem ríkið hefur ákveðið að sjá um.

Virðulegi forseti. Lánshæfismatið hefur svo endurspeglað efnahagsbata síðustu ára. Það tekur mið af lægri skuldastöðu, auknum kaupmætti, farsælu samkomulagi við slitabúin og miklum stöðugleika í ríkisfjármálum svo eitthvað sé nefnt. Hafa verður í huga þegar við skoðum alla þá uppbyggingu sem nú er farið í að hún væri engan veginn möguleg án þess árangurs sem náðst hefur við lækkun skulda ríkisins. Ef ekki hefði verið farið í niðurgreiðslu skulda, eins og sumir telja að hafi verið gert of mikið af, hefði reikningurinn verið sendur á næstu kynslóð, til skattgreiðenda framtíðarinnar. Það er ekki innantómur frasi að skuldir dagsins í dag séu skattar framtíðarkynslóða, heldur staðreynd.

Við búum því við öfundsverða stöðu og getum styrkt kerfið enn betur. Með traustri og ábyrgri efnahagsstjórn og stórbættri afkomu ríkissjóðs hefur nefnilega myndast raunverulegt svigrúm til að efla heilbrigðis- og velferðarkerfið, mennta- og samgöngukerfið og fleiri kerfi en einnig til að lækka skatta. Þetta er gert án þess að auka útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu.

Það er þó ekki nóg því að við þurfum ávallt að endurskoða það hvort við séum að gera of mikið með tilheyrandi útgjaldaaukningu. Ríkið á það nefnilega til að ætla sér um of. Það sér oft ekki auðveldlega tækifæri í hagræðingu og tæknivæðingu og telur einkaaðila alls ekki til þess fallna að sjá um fjölda verkefna sem óvíst er hvort þurfi yfir höfuð að vera í höndum hins opinbera. Þess vegna fagna ég því, líkt og hv. þm. Haraldur Benediktsson gerði, hvernig umræða um fjárlög hefur þróast milli áranna.

Umræðan er allt önnur en verið hefur síðustu ár. Mun fleiri þingmenn ræða hér stöðu útgjalda og hvort við séum að gera of mikið. Á undanförnum árum hafa farið fram umræður um fjárlög þar sem einungis er hrópað af húsþökum að ekki sé varið nægu fjármagni í hina og þessa málaflokka, stjórnmálamenn hafa látið eins og alls staðar sé hægt að seilast eftir meira fjármagni, alls staðar sé rými fyrir skattahækkanir og engin fyrirstaða um að eyða um efni fram. Þess má líka geta að til eru þeir stjórnmálamenn sem jafnframt hafa talið að niðurgreiðsla skulda sé hið mesta óráð. Það hefur verið algjört eyland í allri umræðunni að mikilvægt sé að vera spar á annarra manna fé, að ósjálfbær útgjöld séu ekki sjálfsögð og að ekki sé samasemmerki milli þess að verkefni fái meiri fjármuni og að verkefnið verði betra eða skili meiru.

Ég fagna því að umræðan hafi breyst til betri vegar og er viss um að í þessum fjárlögum sé á fjölmörgum stöðum hægt að finna verkefni sem mögulega megi hagræða, láta einkaaðila um eða einfaldlega hætta að sinna.

Virðulegi forseti. Við þurfum líka að horfa til þess hvernig við nýtum fjármagnið og meðhöndla það af virðingu, þá helst með virðingu fyrir þeim sem fjármagnsins afla, einstaklingum og fyrirtækjum, rétt eins og hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á í ræðu sinni.

Þess vegna þurfum við að hafa skýr markmið um það hvernig við sem förum með fjárveitingavaldið förum með það fjármagn. Aukin fjárútlát eru ekki endilega ávísun á betri eða meiri þjónustu, þó að það geri það stundum, og það á sérstaklega við um opinberar stofnanir. Við erum í of mörgum tilvikum of upptekin af því að tryggja hverri stofnun og hverju verkefni meira fjármagn í stað þess að horfa á heildarmyndina með augum þeirra sem greiða skattana.

Það er því óskandi að þingmenn sem taka fjárlagafrumvarpið til umfjöllunar í þinglegri meðferð hugsi einnig til þess að þingleg meðferð þarf ekki alltaf að fela í sér að styrkja útgjaldaliði eða bæta í, það færi einnig vel á því ef þeir sæju leiðir til að minnka við og hagræða fremur en hitt. Þar erum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki undanskildir.