Sálfræðingur fyrsta mánudag í mánuði

Ræða á Alþingi 26. september 2018.

Hæstvirtur forseti. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að hitta fólk sem leggur til tíma sinn og hæfileika til að skapa og búa til eitthvað nýtt samfélaginu til góðs. Það er framtakssemi slíks fólks, sem leggur vinnu í nýsköpun, sem stuðlar að verðmætasköpun og ekki síst framförum.

Það eru einmitt slíkir einstaklingar sem leggja mikið á sig sem hafa nú stofnað fyrstu fjargeðheilbrigðisþjónustuna. Vefsíðan minlidan.is er komin upp og byrjuð að þjónusta fjölda einstaklinga sem þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda. Hún er eina starfandi fjargeðheilbrigðisþjónustan sem uppfyllt hefur allar kröfur og fengið leyfi frá embætti Landlæknis.

Þar er beitt hugrænni atferlismeðferð, sem er ein algengasta gagnreynda sálfræðimeðferðin við þunglyndi og kvíða. Með því er verið að svara brýnni þörf fyrir fjölbreyttari úrræði vegna vægari geðrænna einkenna, sér í lagi hjá yngra fólki, til að grípa það á fyrsta stigi vandans. Það er einmitt sá hópur, fólk á aldrinum 18–35 ára með væg eða miðlungsmikil einkenni kvíða og depurðar, sem bráðvantar fleiri úrræði og betri aðgang að geðheilbrigðisþjónustu.

Á síðustu tveimur árum hafa verið stigin mörg framfaraskref í að auka slíka þjónustu og er nú boðið upp á fría sálfræðiþjónustu fyrir börn á flestum heilsugæslustöðvum. En enn eigum við nokkuð í land varðandi sálfræðiþjónustu fyrir fullorðna þótt einhver skref hafi verið tekin nú þegar. Þess vegna eigum við að vera opin fyrir nýjum leiðum og taka upp úrræði í kerfinu þar sem nútímatækni og fjölbreyttari þjónusta er nýtt.

Ekki má gleyma því að það getur aukið þjónustu til muna og aukið og boðið upp á þjónustu á landsbyggðinni þar sem oft er afar takmörkuð þjónusta í boði. Sálfræðingur fyrsta mánudag í mánuði er ekki boðlegt í nútímasamfélagi. Hér er einfaldlega að verða til úrræði sem svarar tækniframförum, það er ódýrara, eykur aðgengi fólks og það þarf ekki að bíða eftir þjónustunni. Það er óskandi að kerfið, bæði heilsugæslan og menntakerfið sjái tækifæri í svona frumkvöðlum, sjái hag í svona framtakssemi sem bæta mun líðan landsmanna og efla geðheilbrigðisþjónustu um land allt.

Styrkja framboðið

Það er hægt að styrkja framboðið með því að leggja inn á reikning þess.


Þeir sem styrkja framboðið fá í staðinn gjöf með merki framboðsins á meðan birgðir endast.

Hægt er að styrkja framboði beint með því leggja inná bankareikning framboðsins:  

Kennitala: 620616-0870

Reikningsnúmer: 0133-26-011882

Frambjóðandi má ekki taka við hærri styrkjum frá einstaka fyrirtæki eða lögaðila en sem nemur 400.000 kr. á ári. Birta ber nöfn allra fyrirtækja/lögaðila sem styrkja kosningabaráttu frambjóðandans.

Frambjóðandi má ekki taka við hærri styrkjum frá einstaklingum en sem nemur 400.000 kr. á ári. Birta skal nöfn einstaklinga sem veitt hafa styrki sem metnir eru á meira en 300.000 kr. til kosningabaráttunnar.