Skilvirkari lög um nálgunarbann

Flest­ir þekkja hug­takið um nálg­un­ar­bann þó ekki farið mikið fyr­ir því í dag­legri umræðu. Nálgunarbanni er ætlað að bæta rétt­ar­stöðu þolenda heim­il­isof­beld­is og annarra þolenda ofbeld­is og of­sókna. Mark­miðið er að vernda þann sem brotið er á og fyr­ir­byggja frek­ara of­beldi. Með ört vax­andi tækniþróun nýt­ist nálg­un­ar­bann einnig til að koma í veg fyr­ir að ein­stak­ling­ur sé áreitt­ur með ra­f­ræn­um hætti, svo sem í gegn­um samfélags­miðla, tölvu­pósta o.fl.

Á und­an­förn­um árum hafa komið upp fjöl­mörg mál þar sem ein­stak­ling­ar hafa verið beitt­ir of­beldi, sætt of­sókn­um eða hót­un­um og í fram­haldi óskað eft­ir nálg­un­ar­banni á þann sem of­beld­inu beit­ir. Fjallað hef­ur verið um sum þess­ara mála í fjöl­miðlum en þau eru þó tals­vert fleiri en við ger­um okk­ur grein fyr­ir.

Ég, ásamt þing­mönn­um allra flokka á Alþingi, höfum lagt fram frum­varp um breyt­ingu á lög­um um nálg­un­ar­bann. Með breyt­ing­um, sem ég tel að séu til bóta, á nú­ver­andi lög­um er ætl­un­in að auka skilvirkni við meðferð mála um nálg­un­ar­bann, setja regl­ur um væg­ari úrræði, gera grein­ar­mun á nálgun­ar­banni og brott­vís­un af heim­ili og um leið létta á dóm­stól­um lands­ins.

Ákvörðun um nálg­un­ar­bann er aldrei tek­in af léttúð. Ákvörðunin er vissu­lega íþyngj­andi fyr­ir þann sem henni sæt­ir og það þarf að meta í hvert skipti hvort rétt­læt­an­legt sé að skerða frelsi viðkom­andi með því að banna hon­um eða henni að nálg­ast eða hafa sam­band við ann­an ein­stak­ling. Á sama hátt er það skerðing á friðhelgi og frelsi brotaþola að þurfa að breyta hög­um sín­um og hátt­um vegna síendurtekins of­beld­is eða of­sókna.

Rétt er að hafa í huga að það er tölu­verður mun­ur á því að fjar­lægja ein­stak­ling af heim­ili og að fá nálgun­ar­bann. Nálg­un­ar­bann er fyrst og fremst ráðstöf­un til að tryggja friðhelgi brotaþola, enda eiga all­ir rétt á því að vera í skjóli frá ein­stak­ling­um sem telj­ast lík­leg­ir til að vinna þeim mein eða ofsækja á ann­an hátt, t.d. með ra­f­ræn­um hætti. Það að fjar­lægja ein­stak­ling af heim­ili fel­ur í sér mun meiri þving­un.

Nú­gild­andi lög voru samþykkt fyr­ir um sjö árum síðan. Nú er kom­in reynsla á þau lög og það er eðlilegt að staldra við og meta hvað megi bet­ur fara. Haft var sam­ráð við nokk­ur lög­reglu­embætti og aðra sem starfa á þeim vett­vangi þar sem krafa um nálg­un­ar­bann hef­ur verið til meðferðar. Niðurstaðan er sú að það þurfi að gera breyt­ing­ar á nú­gild­andi lög­um til að tryggja skil­virk­ari framkvæmd með hag allra að leiðarljósi. Það er hluti af starfi alþing­is­manna, að meta hvort og þá hvernig bæta megi lög­gjöf­ina og láta síðan af því verða. Það er ein­mitt það sem ég tel mig vera að gera með þessu frum­varpi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. september 2018.