Flestir þekkja hugtakið um nálgunarbann þó ekki farið mikið fyrir því í daglegri umræðu. Nálgunarbanni er ætlað að bæta réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis og annarra þolenda ofbeldis og ofsókna. Markmiðið er að vernda þann sem brotið er á og fyrirbyggja frekara ofbeldi. Með ört vaxandi tækniþróun nýtist nálgunarbann einnig til að koma í veg fyrir að einstaklingur sé áreittur með rafrænum hætti, svo sem í gegnum samfélagsmiðla, tölvupósta o.fl.
Á undanförnum árum hafa komið upp fjölmörg mál þar sem einstaklingar hafa verið beittir ofbeldi, sætt ofsóknum eða hótunum og í framhaldi óskað eftir nálgunarbanni á þann sem ofbeldinu beitir. Fjallað hefur verið um sum þessara mála í fjölmiðlum en þau eru þó talsvert fleiri en við gerum okkur grein fyrir.
Ég, ásamt þingmönnum allra flokka á Alþingi, höfum lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um nálgunarbann. Með breytingum, sem ég tel að séu til bóta, á núverandi lögum er ætlunin að auka skilvirkni við meðferð mála um nálgunarbann, setja reglur um vægari úrræði, gera greinarmun á nálgunarbanni og brottvísun af heimili og um leið létta á dómstólum landsins.
Ákvörðun um nálgunarbann er aldrei tekin af léttúð. Ákvörðunin er vissulega íþyngjandi fyrir þann sem henni sætir og það þarf að meta í hvert skipti hvort réttlætanlegt sé að skerða frelsi viðkomandi með því að banna honum eða henni að nálgast eða hafa samband við annan einstakling. Á sama hátt er það skerðing á friðhelgi og frelsi brotaþola að þurfa að breyta högum sínum og háttum vegna síendurtekins ofbeldis eða ofsókna.
Rétt er að hafa í huga að það er töluverður munur á því að fjarlægja einstakling af heimili og að fá nálgunarbann. Nálgunarbann er fyrst og fremst ráðstöfun til að tryggja friðhelgi brotaþola, enda eiga allir rétt á því að vera í skjóli frá einstaklingum sem teljast líklegir til að vinna þeim mein eða ofsækja á annan hátt, t.d. með rafrænum hætti. Það að fjarlægja einstakling af heimili felur í sér mun meiri þvingun.
Núgildandi lög voru samþykkt fyrir um sjö árum síðan. Nú er komin reynsla á þau lög og það er eðlilegt að staldra við og meta hvað megi betur fara. Haft var samráð við nokkur lögregluembætti og aðra sem starfa á þeim vettvangi þar sem krafa um nálgunarbann hefur verið til meðferðar. Niðurstaðan er sú að það þurfi að gera breytingar á núgildandi lögum til að tryggja skilvirkari framkvæmd með hag allra að leiðarljósi. Það er hluti af starfi alþingismanna, að meta hvort og þá hvernig bæta megi löggjöfina og láta síðan af því verða. Það er einmitt það sem ég tel mig vera að gera með þessu frumvarpi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. september 2018.