Ný hugsun í menntamálum

Þrátt fyr­ir að iðnaður skapi fjórðung landsframleiðslunn­ar og rúm­lega þriðjung gjaldeyristekna flokk­um við enn iðn-, tækni- og starfs­mennt­un sem óæðri mennt­un. Ekki aðeins í lög­gjöf held­ur líka í hugs­un og fram­kvæmd. Aðeins 16% ný­nema á fram­halds­skóla­stigi sækja í iðngreinar á meðan gríðarleg þörf er á fleira iðnmenntuðu fólki. Skekkj­an sem er til staðar milli námsvals og eft­ir­spurn­ar eft­ir vinnu­afli er þegar orðin mik­il og mun að öllu óbreyttu verða enn meiri.

Ég hef lagt fram frum­varp á Alþingi sem legg­ur sveins­próf að jöfnu við stúd­ents­próf hvað varðar inn­töku­skil­yrði í há­skóla. Með því er verið að opna dyr nem­enda að há­skóla­námi, dyr sem áður voru lokaðar þeim sem höfðu valið sér iðnnám. Það eru mörg dæmi þess að aðilar sem lokið hafa iðnnámi vilji auka við sig mennt­un. Það á að vera verk­efni há­skóla að leggja heild­stætt og fjöl­breytt mat á nem­end­ur en ekki gera upp á milli fólks eft­ir því hvernig það hef­ur aflað þekk­ing­ar­inn­ar. Að fjölga há­skóla­menntuðum með fjöl­breytt­ari bak­grunn mun reyn­ast sam­fé­lag­inu dýr­mætt. Stærsti ávinn­ing­ur­inn yrði að eyða göml­um viðhorf­um um að bók­nám sé ávallt skör hærra og fram­gang­ur þeirra sem lokið hafa iðn, tækni- og starfs­mennt­un til meira náms sé ekki mögu­leg­ur án stúd­ents­prófs.

Það er rétt að taka fram að það er ekki öll­um nauðsyn­legt að fara í há­skóla­nám. Fjöldi fólks lýk­ur iðn- eða tækni­mennt­un, t.d. sveins­prófi og síðar meist­ara­námi, fer síðan út á vinnu­markaðinn og býr til verðmæti í sam­fé­lag­inu. Marg­ir stofna sín eig­in fyr­ir­tæki og þannig mætti áfram telja. Þetta snýst fyrst og fremst um það að gefa þess­um einstakling­um val um há­skóla­mennt­un kjósi þeir hana síðar á lífs­leiðinni.

Þó um sé að ræða stóra kerf­is­breyt­ingu þá mun hún ekki nægja ein og sér. Ný hugs­un og meiri þekk­ing er lyk­il­atriði ef við ætl­um að ráðast á rót vand­ans. Við get­um ekki og mun­um ekki auka áhuga barna á ein­hverju sem þau þekkja ekki. Í dag geta börn ein­ung­is nefnt 4-6 grein­ar að meðaltali þegar spurt er um aðrar leiðir í námi en til hefðbund­ins stúd­ents­prófs. Í boði eru 100 leiðir. Hér er starfs­ráðgjöf ábóta­vant því ljóst er að þekking­ar­leysi skap­ar viðhorfið til grein­anna sem eru samt svo dýr­mæt­ar í at­vinnu­líf­inu. Við mun­um ekki geta kennt börn­um allt á bók­ina.

Mennta­kerfið er lyk­ilþátt­ur í að skapa hér framúrskar­andi lífs­kjör. Efl­ing iðn-, tækni- og starfs­náms mun auka fjöl­breyti­leika ís­lensks sam­fé­lags sem er und­ir­búið að tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir. Að taka stór skref til að breyta áhersl­um kerf­is­ins og gera iðnnámi jafn hátt und­ir höfði og bók­námi, bæði í lög­gjöf og í raun­veru­legri fram­kvæmd, er mik­il­vægt skref til auk­inna fram­fara og hag­sæld­ar. At­vinnu­lífið þró­ast hratt og mennta­kerfið og áhersl­ur þess mega ekki sitja eft­ir.

Greinin „Ný hugsun í menntamálum” birtist í Morgunblaðinu 27. október 2018.