Hugmyndafræði sundrungar

Það er ekki fyr­ir hvern sem er að gagn­rýna eða ef­ast um hag­fræðiþekk­ingu þeirra sem nú fara fyr­ir stærstu verka­lýðsfé­lög­um lands­ins. Sá hinn sami má eiga von á því að vera sam­tvinnaður við illt auðvald, sakaður um að vinna gegn launa­fólki og fleira í þeim dúr. Það eina sem er ör­uggt er að sá sem hreyf­ir efa­semd­um um hina pólitísku stefnu hinna miklu leiðtoga verður út­hrópaður með fúkyrðum – lík­lega í þeim til­gangi að koma í veg fyr­ir að viðkom­andi tjái sig nokk­urn tím­ann aft­ur. Op­in­ber orðræða fæl­ir skyn­samt fólk frá því að taka til máls.

Skyn­sömu fólki má vera ljóst að kröf­ur há­vær­ustu verka­lýðsfé­lag­anna eru ekki bara óraun­hæf­ar og óskynsam­leg­ar, held­ur með öllu ábyrgðarlaus­ar og aðeins til þess falln­ar að búa til fals­von­ir. Sem bet­ur fer þekkja marg­ir vel til mála og geta tek­ist á við óskyn­sem­ina með efn­is­leg­um og mál­efna­leg­um hætti. Það hafa að vísu ekki all­ir jafn digra sjóði og stétt­ar­fé­lög­in hafa en við skul­um vona að skyn­sem­in hafi yf­ir­hönd­ina, sem trygg­ir launa­fólki betri lífs­kjör – stöðug­leika og auk­inn kaup­mátt.

Hug­mynda­fræðilegi þátt­ur­inn er þó ekki síður mik­il­væg­ur. Árið er 2018 en vofa Karls Marx lifn­ar við í frös­um ís­lenskra for­ystu­manna verka­lýðsfé­laga og fylg­i­sveina þeirra. Þeir sem eldri eru þekkja af­leiðing­ar sósí­al­ism­ans í Sov­ét­ríkj­un­um, Aust­ur-Þýskalandi og Kína og við sem yngri erum höf­um séð hvernig al­menn­ing­ur í Venesúela hef­ur greitt dýru verði fyr­ir enn eina til­raun­ina í nafni sósí­al­ism­ans. Landi sem fyr­ir ör­fá­um árum var eitt auðug­asta ríki í Suður-Am­er­íku en er nú orðið efna­hags­leg auðn. Dæm­in eru fleiri en rúm­ast í stutt­um pistli sem þess­um, en niðurstaðan er alltaf sú sama. Hvar sem sósí­al­ismi hef­ur skotið rót­um eru af­leiðing­arn­ar skelfi­leg­ar fyr­ir al­menn­ing. Það er eng­in ástæða til að ætla að niðurststaðan yrði önn­ur hér á landi.

Einn af þeim frös­um sem við höf­um fengið að heyra mikið af á und­an­förn­um miss­er­um er að at­vinnu­rek­end­ur séu óvin­ir launa­manna. Ekk­ert gæti verið fjær sanni. Hvor­ir um sig geta ekki lifað án hinna. Það er sam­eig­in­leg­ur hag­ur at­vinnu­rek­enda og launa­fólks að vel gangi í rekstri. Bætt­ur hag­ur launa­fólks er bætt­ur hag­ur fyr­ir­tækj­anna og öf­ugt.

Hug­mynda­fræði sósí­al­ista sem nú hafa hæst í aðdrag­anda kjara­samn­inga er hug­mynda­fræði sem bygg­ist á og sæk­ir nær­ingu í sundr­ungu. Henni er ætlað að reka fleyg, ekki aðeins milli at­vinnu­rek­enda og launa­fólks held­ur einnig milli stétta. Sag­an kenn­ir okk­ur hvaða af­leiðing­ar það hef­ur. Fyr­ir launa­fólk, ekki síður en eig­end­ur fyr­ir­tækja, er nauðsyn­legt að spyrna við fót­um.

Greinin „Hugmyndafræði sundrungar" birtist í Morgunblaðinu 6. nóvember 2018.