Formaður Samfylkingarinnar lagði nýlega fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í húsnæðismálum, þar sem lagt er til að brugðist sé við alvarlegu ástandi og að stjórnvöld komi að byggingu 5.000 leiguíbúða til að mæta skorti á húsnæði.
Skilaboðin eru skýr; formaður Samfylkingarinnar hefur ekki trú á því að vinstri meirihlutinn í Reykjavík standi við skyldu sína um að tryggja nægjanlegt framboð á byggingarlóðum á hagstæðu verði. Hann virðist heldur ekki hafa trú á því að flokksbróðir hans, borgarstjórinn í Reykjavík, standi við gefin loforð um fjölda nýrra íbúða í höfuðborginni. Kannski ekki að undra þar sem loforðin eru endurunnin frá síðasta kjörtímabili enda ekki við þau staðið.
Það er öllum ljóst að það ríkir vandi á húsnæðismarkaði. Vandinn er fyrst og fremst framboðsvandi, ekki síst vegna skorts á byggingarlóðum á hagstæðu verði. Ábyrgðin er sveitarstjórna og mörg hafa staðið undir þeirri ábyrgð. Önnur hafa ekki sinnt sínum skyldum eins og formaður Samfylkingarinnar virðist átta sig á.
Stjórnvöld eiga að tryggja raunverulegt valfrelsi í húsnæðismálum. Í nýlegri skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að langflestir (92%) vilja búa í sínu eigin húsnæði. Þannig byggir fólk upp fjárhagslegt öryggi og sjálfstæði, eitthvað sem vinstri flokkunum hugnast illa. Það kann að henta sumum að vera í leiguhúsnæði til skemmri tíma, t.d. ungu fólki í námi. Aðrir vilja hreinlega búa í leiguhúsnæði og líta á það sem ákveðið frelsi frá fjárhagslegum skuldbindingum. Stefna stjórnvalda á hins vegar ekki að einblína á það að byggja ótakmarkað magn af leiguhúsnæði, heldur eiga stjórnvöld að gera það sem þau geta – og innan skynsamlegra marka – til að aðstoða einstaklinga við að eignast sitt eigið húsnæði.
Ríkisvaldið getur gert sitt með því að breyta og eftir tilvikum afnema óþarfar reglugerðir og minnka kostnað við íbúðarkaup. Áður hefur verið bent á það að með breyttum byggingarreglugerðum sé hægt að lækka byggingarkostnað um 15-20%, án þess að skerða öryggi, aðgengi og gæði bygginga.
Stimpilgjald er kostnaðarliður sem þarf að afnema og skapa þannig heilbrigðara umhverfi á fasteignamarkaði. Af 35 milljóna króna íbúð þarf að greiða tæpar 300 þúsund krónur í stimpilgjald til ríkisins. Þessi tilgangslausi skattur bitnar ekki einungis á ungu fólki heldur líka öllum þeim sem hyggjast hreyfa sig á húsnæðismarkaði, t.d. eldra fólki sem vill minnka við sig svo tekið sé dæmi.
Ég hef aftur lagt fram frumvarp um afnám stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði, ekki bara vegna fyrstu íbúðarkaupa heldur almennt allra einstaklinga. Ég vonast til þess að hægt verði að klára frumvarpið á yfirstandandi þingi. Þannig stígum við stórt skref í átt að betri húsnæðismarkaði.
Greinin „Afnemum stimpilgjald” birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember 2018.