Frjáls viðskipti viðhalda hagsæld og friði

Það er mik­il­vægt að hér á landi sé til staðar þekk­ing og reynsla þegar kem­ur að því að tryggja ör­yggi borg­ar­anna, hvort sem er í hernaðarlegu eða borg­ara­legu til­liti. Hluti af því er að ræða með reglu­bundn­um hætti og af yf­ir­veg­un um ör­ygg­is- og varn­ar­mál.

Það eru þó fleiri mik­il­væg­ir þætt­ir sem skipta máli. Þannig má nefna hug­tök á borð við frið, lýðræði og viðskipti – sem öll eru ná­tengd þegar bet­ur er að gáð. Sag­an hef­ur sýnt okk­ur að lýðræðisþjóðir eru lík­legri til að eiga friðsam­legri sam­skipti sín á milli og grípa síður til vopna hver gegn ann­arri. Það sama má segja um ríki sem eiga í frjáls­um viðskipt­um og eiga þannig sam­eig­in­legra hags­muna að gæta. Þannig má nefna að ein meg­in­for­senda friðar í Evr­ópu sl. 70 ár er að rík­in sem áður börðust hvert við annað á víg­vell­in­um eru hvort tveggja í senn orðin að lýðræðis­ríkj­um og eiga sam­eig­in­legra hags­muna að gæta í formi frjálsra viðskipta sín á milli.

Það þarf stöðugt að leggja áherslu á mik­il­vægi frjálsra viðskipta á alþjóðavísu. Það má ætla að hvar sem við stönd­um á vængj­um stjórn­mál­anna get­um við flest verið sam­mála um það að síðastliðin 200 ár eða svo hafa verið þau fram­sækn­ustu í mann­kyns­sög­unni. Um þetta fjall­ar sænski sagn­fræðing­ur­inn Joh­an Nor­berg í bók sinni Fram­far­ir, sem til er í ís­lenskri þýðingu. Líf okk­ar hér á jörðinni hef­ur aldrei verið betra en ein­mitt nú. Það er ekki per­sónu­leg skoðun höf­und­ar held­ur full­yrðing sem er rök­studd með staðreynd­um.

Þó vissu­lega megi finna marg­ar skýr­ing­ar á því þá eru auk­in milli­ríkjaviðskipti al­gjör lyk­ilþátt­ur í að skapa aukna hag­sæld. Auk­in milli­ríkjaviðskipti skapa störf, ýta und­ir tækniþróun, hjálpa fá­tæk­ari ríkj­um að kom­ast í áln­ir og þannig mætti áfram telja. Þær þjóðir sem hafa náð hvað mest­um ár­angri og fram­förum á síðustu árum, ára­tug­um og öld­um eru sömu þjóðir og hafa lagt áherslu á milli­ríkjaviðskipti og vin­sam­leg sam­skipti við aðrar þjóðir.

Frjáls viðskipti eru þó ekki sjálf­gef­in og það er mikið fyr­ir þeim haft. Svo ótrú­legt sem það má vera árið 2018, þá heyr­um við reglu­lega orðið tolla­stríð í frétt­um. Það snýr að mestu leyti að þeim aðila sem nú ræður ríkj­um í Hvíta hús­inu – en á sama tíma verðum við ít­rekað vör við van­trú og efa­semd­ir um ágæti milli­ríkjaviðskipta meðal þjóðarleiðtoga eða ein­stakra stjórn­mála­flokka í Evr­ópu og Asíu. Við erum stöðugt minnt á að frjáls viðskipti eru ekki sjálf­sögð.

Við Íslend­ing­ar eig­um að halda uppi merkj­um frjálsra viðskipta hvar sem við get­um. Við vit­um að þau leiða til hag­sæld­ar og fram­fara og við vit­um að auk­in viðskipti auka lík­urn­ar á friði í heim­in­um. Það er því mik­il­vægt að við stönd­um vörð um frjáls­an flutn­ing á vör­um, þjón­ustu, fjár­magni og fólki. Þannig viðhöld­um við í senn hag­sæld og friði.

Greinin „Frjáls viðskipti viðhalda hagsæld og friði“ birtist í Morgunblaðinu 24. nóvember 2018.