Það er mikilvægt að hér á landi sé til staðar þekking og reynsla þegar kemur að því að tryggja öryggi borgaranna, hvort sem er í hernaðarlegu eða borgaralegu tilliti. Hluti af því er að ræða með reglubundnum hætti og af yfirvegun um öryggis- og varnarmál.
Það eru þó fleiri mikilvægir þættir sem skipta máli. Þannig má nefna hugtök á borð við frið, lýðræði og viðskipti – sem öll eru nátengd þegar betur er að gáð. Sagan hefur sýnt okkur að lýðræðisþjóðir eru líklegri til að eiga friðsamlegri samskipti sín á milli og grípa síður til vopna hver gegn annarri. Það sama má segja um ríki sem eiga í frjálsum viðskiptum og eiga þannig sameiginlegra hagsmuna að gæta. Þannig má nefna að ein meginforsenda friðar í Evrópu sl. 70 ár er að ríkin sem áður börðust hvert við annað á vígvellinum eru hvort tveggja í senn orðin að lýðræðisríkjum og eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í formi frjálsra viðskipta sín á milli.
Það þarf stöðugt að leggja áherslu á mikilvægi frjálsra viðskipta á alþjóðavísu. Það má ætla að hvar sem við stöndum á vængjum stjórnmálanna getum við flest verið sammála um það að síðastliðin 200 ár eða svo hafa verið þau framsæknustu í mannkynssögunni. Um þetta fjallar sænski sagnfræðingurinn Johan Norberg í bók sinni Framfarir, sem til er í íslenskri þýðingu. Líf okkar hér á jörðinni hefur aldrei verið betra en einmitt nú. Það er ekki persónuleg skoðun höfundar heldur fullyrðing sem er rökstudd með staðreyndum.
Þó vissulega megi finna margar skýringar á því þá eru aukin milliríkjaviðskipti algjör lykilþáttur í að skapa aukna hagsæld. Aukin milliríkjaviðskipti skapa störf, ýta undir tækniþróun, hjálpa fátækari ríkjum að komast í álnir og þannig mætti áfram telja. Þær þjóðir sem hafa náð hvað mestum árangri og framförum á síðustu árum, áratugum og öldum eru sömu þjóðir og hafa lagt áherslu á milliríkjaviðskipti og vinsamleg samskipti við aðrar þjóðir.
Frjáls viðskipti eru þó ekki sjálfgefin og það er mikið fyrir þeim haft. Svo ótrúlegt sem það má vera árið 2018, þá heyrum við reglulega orðið tollastríð í fréttum. Það snýr að mestu leyti að þeim aðila sem nú ræður ríkjum í Hvíta húsinu – en á sama tíma verðum við ítrekað vör við vantrú og efasemdir um ágæti milliríkjaviðskipta meðal þjóðarleiðtoga eða einstakra stjórnmálaflokka í Evrópu og Asíu. Við erum stöðugt minnt á að frjáls viðskipti eru ekki sjálfsögð.
Við Íslendingar eigum að halda uppi merkjum frjálsra viðskipta hvar sem við getum. Við vitum að þau leiða til hagsældar og framfara og við vitum að aukin viðskipti auka líkurnar á friði í heiminum. Það er því mikilvægt að við stöndum vörð um frjálsan flutning á vörum, þjónustu, fjármagni og fólki. Þannig viðhöldum við í senn hagsæld og friði.
Greinin „Frjáls viðskipti viðhalda hagsæld og friði“ birtist í Morgunblaðinu 24. nóvember 2018.