Tryggjum fleiri leiðir

Ein stærsta áskor­un mennta­kerf­is­ins er ekki bara að stand­ast kröf­ur nú­tím­ans held­ur að búa nemend­ur á öll­um aldri und­ir framtíðina. Það er verk­efni sem er sí­fellt í þróun og því er stöðnun líklega versti óvin­ur mennta­kerf­is­ins – og þá um leið at­vinnu­lífs­ins, ný­sköp­un­ar, rann­sókna og þannig mætti áfram telja.

Ein leið, af mörg­um, til að stuðla að framþróun er að rýmka það svig­rúm sem áður var veitt til að hefja há­skóla­nám. Í síðustu viku kynnti ég breyt­ing­ar sem ég hyggst leggja fram með frum­varpi nú á vorþingi um inn­töku­skil­yrði í há­skóla. Breyt­ing­arn­ar snúa að því að gera inn­töku­skil­yrðin sveigj­an­legri og gefa há­skól­um aukið vald til að líta til annarra þátta en próf­gráða, m.a. verði þekk­ingu og reynslu gefið aukið vægi þegar nem­end­ur eru metn­ir.

Áður hef ég lagt fram frum­varp sem gef­ur sveinsprófi aukið vægi við inn­töku í há­skóla­nám. Hvoru tveggja grund­vall­ast í því að há­skól­inn geti haft meiri sveigj­an­leika og lagt heild­stætt mat á nem­end­ur, við mis­mun­andi próf­gráður, metið reynslu úr starfi og að það skipti ekki höfuðmáli hvaðan þekk­ing­in kem­ur hafi nem­andi næga þekkingu til að hefja há­skóla­nám.

Með frum­varp­inu er ekki verið að slá af kröf­um til há­skóla­mennt­un­ar, held­ur er verið að koma til móts við framtíðina og breytt­an veru­leika. Kröf­ur síðustu ára­tuga mega vel þró­ast í takt við tím­ann. Einstakling­ar með list­mennt­un sem hafa starfað lengi á leik­skóla eiga ekki kost á að ná sér í leikskóla­kenn­ara­mennt­un nema með stúd­ents­prófi eða sér­stök­um und­anþágum, svo tekið sé dæmi. Það er kom­inn tími til að meta raun­veru­lega reynslu ein­stak­linga úr at­vinnu­líf­inu og koma meiri sveigjan­leika á kerf­in okk­ar svo að þau svari kalli tím­ans.

Með tækni­fram­förum og breyt­ing­um á vinnumarkaði hef­ur at­vinnu­lífið tekið stakka­skipt­um og sú þróun held­ur hratt áfram. Mennta­kerfið má þar ekki vera eft­ir­bát­ur. Ef mennta­kerfið ætl­ar að fylgja þarf nauðsyn­lega að laga þá skekkju sem er milli eft­ir­spurn­ar eft­ir vinnu­afli og námsvali. Það er ekki ásætt­an­legt að vönt­un sé á iðnmenntuðu fólki í stærst­um hluta iðnfyr­ir­tækja og að brott­fall úr bóknámi sé mikið vegna rangr­ar áherslu okk­ar og gam­aldags viðhorfa.

Viðhorf til iðnmennt­un­ar hef­ur lengi verið slæmt, flest­ir líta á stúd­ents­próf sem nauðsyn­lega gráðu til að halda öll­um mögu­leik­um opn­um til framtíðar. Því skul­um við breyta. Það á ekki að loka á tæki­færi framtíðar­inn­ar þó að þú haf­ir náð í þekk­ing­una með öðrum hætti. Leyf­um fólki að finna það starf sem hent­ar hverj­um og ein­um og hætt­um að setja alla í sama form. Stærsti ávinn­ing­ur­inn af þess­um breyting­um og meiri sveigj­an­leika er breytt viðhorf til náms, þá sér í lagi iðnnáms.

Greinin „Tryggjum fleiri leiðir" birtist í Morgunblaðinu 15. janúar 2019.