Verklegar framkvæmdir á vegum opinberra aðila munu ef fer sem horfir nema um 128 milljörðum króna á þessu ári. Þar er um að ræða verkefni á vegum ríkisins, ríkisstofnana, ríkisfyrirtækja og sveitarfélaga. Frá þessu var greint á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í síðustu viku.
Á þessu eru kostir og gallar. Framkvæmdirnar eru mikilvægt innlegg í hagkerfið og uppbygging innviða er ein mikilvægasta framþróun samfélagsins. Þar má nefna vegi, hafnir, flugvelli, virkjanir o.s.frv. en að sama skapi sjúkrahús, öldrunarstofnanir, skóla og önnur þjónustuverkefni. Öll þessi verkefni bera með sér framþróun og uppbyggingu til framtíðar. Öflugar samgöngur eru forsenda þess að skapa hagsæld úti um allt land, skapa atvinnu, flytja vörur og þjónustu og þannig mætti áfram telja. Vegur sem er lagður í dag mun nýtast framtíðarkynslóðum (sé honum haldið við). Að sama skapi mun virkjun framleiða orku um ókomna tíð. Við getum verið afar stolt af því að geta ráðist í öll þessi verkefni til að byggja upp samfélagið okkar. Þegar við hugum að innviðauppbyggingu erum við ávallt að hugsa til lengri tíma og velja verkefni sem nýtast okkur í dag en einnig framtíðarkynslóðum. Um það er ekki deilt.
Hins vegar má velta fyrir sér hvort öll þessi uppbygging þurfi að vera á vegum hins opinbera. Þannig má sem dæmi nefna uppbyggingu og rekstur flugvalla. Í dag erum við með eitt ríkisfyrirtæki, Isavia, sem á og rekur alla flugvelli landsins. Á Keflavíkurflugvelli eru fyrirhugaðar framkvæmdir fyrir tugi milljarða á næstu árum og allt er það á ábyrgð skattgreiðenda. Það er ekki áhættulaust að reka flugvöll. Flugvellir þurfa að standast nútímakröfur um þægindi og öryggi, þeir þurfa að mæta vexti í flugumferð og ferðaþjónustu og stunda öfluga markaðsstarfsemi í þeim tilgangi að laða að sér viðskiptavini. Allt er þetta eitthvað sem einkaaðilar eru fullfærir um að sinna og margir af stærstu flugvöllum Evrópu eru í eigu einkaaðila.
Það er í raun engin ástæða fyrir hið opinbera að eiga og reka alþjóðaflugvöll. Einhver kynni að halda því fram að rekstur flugvallar færði ríkinu tekjur, en svo er ekki. Önnur rök eru þau að flugvöllur sé það mikilvægur þáttur í samfélaginu að best fari á því að hið opinbera annist rekstur hans. Flugvellir eru vissulega mikilvægir, en það er ekki þar með sagt að ríkið þurfi að eiga þá og reka. Einkaaðili sem á og rekur flugvöll þarf að lúta lögum landsins og reglum markaðarins. Og jafnvel þótt eitthvað sé mikilvægt er ekki þar með sagt að ríkið þurfi að sinna því. Við eigum að treysta einkaaðilum og sjá til þess að ríkið sinni aðeins þeim verkefnum sem nauðsynlegt er að ríkið sinni. Þau eru ekki mörg – og rekstur flugvalla er ekki eitt af þeim.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar 2018.