Í vörn fyrir sósíalismann

Íslensk stjórnvöld lýstu nýlega yfir stuðningi við Juan Guaidó til bráðabirgða, en Guaidó er lýðræðislega réttkjörinn forseti valdalauss þjóðþings Venesúela. Með því skipaði Ísland sér í raðir vestrænna ríkja, sem er ánægjulegt.

Í framhaldinu er rétt að það fari fram kosningar í landinu og til lengri tíma litið tekst Venesúela vonandi að rífa sig upp úr þeirri eymd sem sósíalistar hafa valdið almenningi í landinu á undanförnum árum.
Um það er ekki deilt að efnahagur Venesúela er í molum.

Milljónir manna hafa flúið land, lyf og matvæli fást ekki nema fyrir útvalda vini stjórnvalda, skólar og heilsugæslur geta ekki starfað, ungbarnadauði hefur aukist um 30% og dauðsföllum sængurkvenna hefur fjölgað um 65%, innviðir á borð við dreifikerfi rafmagns eru í molum, gjaldmiðill landsins er með öllu verðlaus, réttarkerfið hefur verið svo gott sem afnumið, pólitískir andstæðingar stjórnvalda eru fangelsaðir og pyntaðir og þeir einu sem hafa það gott eru vinir og ættingjar þeirra sem fara með völdin. Í landinu ríkir algjör upplausn.

Um miðja síðustu öld var Venesúela eitt ríkasta land heims. Þrátt fyrir miklar náttúruauðlindir, s.s. olíu og frjósamt land fyrir matvælaframleiðslu, ríkir nú hungursneyð í landinu – hungur í boði hugmyndafræði sem hefur alltaf haft slæmar afleiðingar fyrir almenning. Það gefst ekki rúm til að rekja alla söguna hér í þessum stutta pistli og vissulega hafa utanaðkomandi aðstæður einnig haft áhrif á efnahagsþróun í landinu, líka til hins verra. Meginástæðuna fyrir þeim efnahagsvanda sem hefur ríkt í landinu síðastliðin fimm ár má þó nær eingöngu rekja til stefnu sósíalista. Önnur olíuríki hafa einnig fundið fyrir lækkun olíuverðs án þess þó að efnahagur þeirra hafi hrunið eins og spilaborg. Slæm efnahagsstjórn og spilling eru þó ekki einu afrek sósíalista í landinu á síðustu árum. Með því að beita bæði her og glæpagengjum hafa stjórnvöld níðst á almenningi í landinu með ofbeldi, kúgun og niðurlægingu. Slík hegðun kom til löngu áður en efnahagur landsins fór í vaskinn.

Á sama tíma og vestræn lýðræðisríki lýsa yfir stuðningi við Juan Guaidó reyna margir, sem allir eiga það sameiginlegt að styðja sósíalíska hugmyndafræði, að gera lítið úr afleiðingum sósíalískrar stefnu stjórnvalda í Venesúela og snúa umræðunni í einhvers konar andúð á heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Það er engu líkara en að þessir aðilar trúi því að eymd íbúa Venesúela sé þess virði svo lengi sem Bandaríkjamenn skipti sér ekki af málum.

Staðreyndin er sú að við erum í enn eitt skiptið að sjá skipsbrot sósíalismans. Afleiðingar sósíalisma eru alltaf þær sömu fyrir almenning; eymd, volæði og hungur.

Greinin „Í vörn fyrir sósíalismann" birtist í Morgunblaðinu 12. febrúar 2019.