Í gær tók ég þátt í umræðu á þinginu um fjarlækningar.
Það er gríðarlega mikilvægt að við fáum tækifæri til að ræða framþróunina og alla þá uppbyggingu sem orðið getur í heilbrigðiskerfinu með nýrri tækni og tækifærum.
Við höfum séð slíkt spretta upp á síðustu árum þar sem fólk hefur lagt sitt af mörkum til að bjóða framúrskarandi þjónustu fyrir fólkið í landinu.
Á Kirkjubæjarklaustri er gott dæmi þar sem læknir og hjúkrunarfræðingur buðu uppá betra aðgengi að heilsugæslu með fjarheilbrigðisþjónustu, sem getur síðan einnig nýst sérfræðilæknum. Önnur öflug dæmi er Kara og Mín líðan. Allt mismunandi lausnir sem eiga það sameiginlegt að bæta heilbrigðisþjónustu og hafa sprottið umm til að mæta kröfu fólks út frá veruleika þess, veruleika nýrrar tækni og öðruvísi þjónustu.
Það er einmitt þessi bætta þjónusta og tækifærin sem þar búa sem gleymast stundum í umræðunni þegar við ræðum kerfið og kröfurnar sem við þurfum að gera. Þá gleymist þjónustan fyrir fólkið okkar og þau tækifæri sem þetta skapar – bætt aðgengi, ekki síst á landsbyggðinni, skjótari úrlausnir og minni kostnaður.
Við megum ekki stuðla að því að þessi fyrirtæki eigi í vanda eða samskiptaörðugleikum við ríkið af því að við ætlum að gera of miklar kröfur til þeirra sem bæta aðgengi með hjálp tækninnar, meiri en til þeirra sem þegar sinna þessari þjónustu augliti til auglitis, en ekki í gegnum tæknina.
Ég vona að tekin verði upp tilraunaverkefni og þessu einkaframtaki leyft að blómstra án þess að leggja steina í götur þeirra. Það eru svona kerfi sem við eigum að þora að nota, þora að prófa til að skoða hvað betur megi fara, hvaða kröfur sé eðlilegt og forsvaranlegt að gera og hvaða þekkingu sé hægt að nýta öllum til góðs sem búin hefur verið til í stað þess að allir séu að forrita í öllum hornum kerfisins.
Við þurfum að mæta fólki þar sem það er, lyfta einkaframtakinu og hugsa kerfið útfrá því hvað er best fyrir sjúklingana en ekki kerfinu sjálfu.