ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Frumvarpið mitt um nálgunarbann samþykkt!

Í dag er skemmtilegur dagur en ég fékk fyrsta þingmannamálið mitt samþykkt fyrr í dag. Það má segja að ég hafi gert það með smá stæl, þar sem ég misreiknaði í fyrsta sinn klukkan hvað atkvæðagreiðsla er. En hún er á mismunandi tímum á daginn og ég hafði ákveðið að hún væri klukkan tvö en ekki ellefu. Vegna þess mætti ég vægast sagt móð og másandi þegar ég greiddi málinu atkvæði og hélt þessa ræðu.

Málið er mikilvægt og ég er afar ánægð að það verði að lögum nú 1. mars en það bætir og einfaldar ákvörðun um nálgunarbann. Nálgunarbann er fyrst og fremst ráðstöfun til að tryggja friðhelgi brotaþola, enda eiga allir rétt á því að vera í skjóli frá einstaklingum sem teljast líklegir til að vinna þeim mein eða ofsækja á annan hátt, t.d. með rafrænum hætti.

Það að fjarlægja einstakling af heimili felur í sér mun meiri þvingun en nálgunarbann er nær því að vera tryggingaráðstöfun en þvingunarráðstöfun. Með frumvarpinu eru þessi úrræði aðskilin og málsmeðferð nálgunarbanna gerð léttari ásamt að kveða á um vægari úrræði með það að markmiði að bæta réttarstöðu þolenda.

Mögulega mun áframhaldandi dómaframkvæmd kalla á enn skýrara ákvæði hvað þetta varðar og mikilvægt er að skoða í framhaldinu hvort þyngja þurfi refsingar við broti á nálgunarbanni.

Myndbandið má sjá hér: https://www.facebook.com/aslaugarna/videos/317041045618436/?eid=ARAkmMEHl5Z1zfrgNKe5Gi1JnDaBMRUgg3xBLiMU7_u-II95CyRYYoOuWxprpKIEvF7hhD8fyXLkwQ3l