Það er hægt að færa málefnaleg rök fyrir því að þingið eigi að gera sem minnst, hafa sem minnst afskipti af almenningi og fyrirtækjum, setja lítið af lögum og reglugerðum (sem flest hver eru íþyngjandi) og gæta þess aðeins að sinna nauðsynlegum verkefnum. Það er líka hægt að færa málefnaleg rök fyrir því að þingið eigi að grípa inn í ákveðin atriði, móta stefnu um ákveðin mál, létta byrðum, einfalda kerfi og þannig mætti áfram telja.
Það er hins vegar einkennilegt að lesa skrif þingmanna um að vinna þeirra snúist um að gera ekki neitt, þeir nái litlum árangri og að málin þeirra fari ekki í gegnum þingið. Fyrir utan það að vera ekki rétt þá er þetta undarlegt viðhorf kjörinna fulltrúa til þess hlutverks sem þeim er ætlað. Það er dálítið eins og menn ætli sér að útskýra fyrirfram skort á dugnaði eða annað árangursleysi. Eitt er ljóst að árangur þingmanna er ekki mældur í fjölda fyrirspurna.
Á undanförnum árum hafa mörg þingmannamál farið í gegnum þingið. Um sum þeirra ríkir pólitísk sátt en fyrir öðrum þurfa þingmenn að berjast. Á þessu er allur gangur eins og eðlilegt er. Frumvarp mitt um breytingar á lögum um nálgunarbann er á lokametrunum í þinginu og það mun að öllu óbreyttu verða samþykkt í dag af því að hér er um að ræða mikilvægt mál sem þingmenn voru allir sammála um að afgreiða.
Þeir þingmenn eru til sem verja, eða eyða eftir því hvernig á það er litið, megninu af starfstíma sínum í það að ætla öðrum illt. Þeir telja alla aðra en sig sjálfa vera spillta, allir aðrir en þeir sjálfir séu með annarlegan tilgang í störfum sínum og svo framvegis. Þá er svo sem ekki skrýtið að þeir nái ekki árangri í störfum sínum, því markmiðin eru óljós og stefnan er engin. Staðreyndin er sú að jafnvel þó svo að stjórnmálamenn greini á um mörg stefnumál er meginþorri þeirra að vinna starf sitt af heilindum og í góðum tilgangi.
Mikilvægt er fyrir stjórnmálamenn er að hlusta á og skilja fólkið í landinu. Af þeirri ástæðu hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafið hringferð um landið þar sem almenningur á milliliðalaus samskipti við þingmenn og varpar fram sjónarmiðum sínum um hin ýmsu mál. Með þau samtöl í farteskinu snúa þingmenn aftur til starfa sinna vitandi hvað það er sem brennur helst á fólki. Þannig höldum við fókus á þau málefni sem skipta raunverulega máli.
Það skiptir máli að heyra og skilja hvað brennur á þeim sem reka fyrirtæki, stór og smá, hvort sem er á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Það skiptir máli að vita hvað brennur á þeim sem búa við skertar samgöngur. Það skiptir máli að vita hvað það er sem bætir líf fólks, bæði í félagslegu og efnahagslegu tilliti.
Við hlustum á fólkið í landinu. Þess vegna vitum við hvert við stefnum, áfram veginn og upp á við.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. febrúar 2019.