Ég er að leggja fram þingsályktun sem snýst um að ríkið og stofnanir þess gangi fram með góðu fordæmi og birti skiptingu tekjuskatts ríkis og sveitarfélaga á launaseðli fólks. Einnig er lagt til að greiðsla tryggingagjaldsins verði sjáanleg á launaseðlum opinberra starfsmanna.
Markmiðið er að auka gagnsæi skattheimtu og almenna þekkingu um það hvernig skatti er skipt og á launatengdum gjöldum.
Allt launafólk sem hefur tekjur undir um 745 þús. kr. á mánuði greiðir hærri upphæð af launum sínum í útsvar til sveitafélaga en það greiðir í tekjuskatt.
Einstaklingur með 500 þús. kr. í mánaðarlaun greiðir um 49.300 kr. í tekjuskatt að frádregnum persónuafslætti en tæpar 67.900 kr. í útsvar.
Fyrst og fremst snýst þetta um gagnsæi og að auka þekkingu, flest sveitarfélög eru að sinna hlutverki sínu vel og eru til að mynda að lækka gjöld á fólk eins og fasteignagjöld (líkt og Rangárþing eystra kynnti í gær). Gagnsæi og þekking á sköttum og útsvari ætti að vera öllum fagnaðarefni. Markmiðið okkar allra á að vera að létta byrðum af fólki.
Auðvitað eru svo sveitarfélög, eins og til að mynda Reykjavíkurborg sem halda öllu í einhverskonar hámarki og virðast ekki skeyta um hve mikilvægt það er að auka lífskjör fólks með lægri sköttum og gjöldum og betri húsnæðismarkaði.
Sjá forsíðu á Fréttablaðinu:https://www.frettabladid.is/frettir/aslaug-vill-a-sveitarfeloegin-hugi-lika-a-skattalaekkunum?fbclid=IwAR0K4Zg06l3W-D9y07WI7M6gy1frm0ezx4nkeOAQdUyTrwbv8jaMwmPDXvo