Launamenn með tekjur upp að um 745 þús. kr. á mánuði greiða hærri fjárhæð af launum sínum í útsvar til sveitarfélaga en þeir greiða í tekjuskatt til ríkissjóðs. Til dæmis greiðir einstaklingur með 500 þús. kr. í mánaðarlaun um 49.300 kr. í tekjuskatt að frádregnum persónuafslætti en tæpar 67.900 kr. í útsvar. Einstaklingur með 300 þús. kr. í laun greiðir um 7.000 kr. í tekjuskatt en um sexfalda þá upphæð í útsvar, 40.700 kr.
Það er sjálfsagt og eðlilegt mál að launþegar séu vel upplýstir um það hvernig skattgreiðslur þeirra skiptast. Ég hef því ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að framsetningu launaseðla ríkisins og stofnana þess verði breytt með þeim hætti að þar komi fram hvernig staðgreiðslu viðkomandi launþega er skipt. Sérstaklega verði tilgreind fjárhæð tekjuskatts og útsvars launamanns, bæði fjárhæð hvors liðar og hlutfall þeirra af heildarlaunum og einnig komi fram með skýrum hætti sú fjárhæð sem launagreiðandi greiðir í tryggingagjald og önnur launatengd gjöld. Þó að það sé ekki á hendi stjórnmálamanna er rétt að hvetja atvinnurekendur til að gera slíkt hið sama og hafa Samtök atvinnulífsins nú þegar hvatt til þess að tryggingagjald sé sýnilegt á launaseðlum. Þetta má gera með einföldum hætti í nútímabókhaldskerfum.
Það er af hinu góða að launamenn séu almennt upplýstir um önnur launatengd gjöld. Mótframlag í lífeyrissjóð og aðra starfstengda sjóði er í mörgum tilvikum nú þegar sjáanlegt á launaseðlum. Það er full ástæða til að tilgreina með sama hætti tryggingagjald sem greitt er með hverjum launþega. Tryggingagjaldið ber að greiða óháð fjárhæð launa. Með öðrum orðum er greitt sama hlutfall burtséð frá því hversu lág eða há laun viðkomandi starfsmanns eru. Fyrir hvern starfsmann með 350 þús. kr. í mánaðarlaun greiðir atvinnurekandi um 25.750 kr. í tryggingagjald. Fyrir starfsmann með 750 þús. kr. nemur gjaldið um 55 þús. kr.
Það er mikilvægt að auka gagnsæi skattheimtu og almenna þekkingu um það hvernig skatti er skipt milli útsvars og tekjuskatts sem og þekkingu um tryggingagjald og önnur launatengd gjöld launagreiðanda. Þar sem ríkið innheimtir tekjuskatt beint af atvinnurekendum fara tekjuskattur og útsvar aldrei um hendur launþeganna, heldur eru í dag aðeins óljósar tölur á launaseðli. Það mætti einnig orða það þannig að tekjuskattur og útsvar er þannig ekki útgjaldaliður í heimilisbókhaldi landsmanna.
Með því að auka gegnsæi skattheimtunnar ber almenningur betra skynbragð á eigin skattgreiðslur. Það er ekkert nema gott um það að segja. Með þeim hætti verður vonandi erfiðara fyrir hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, að hækka skatta.
Greinin „Skýrari skattgreiðslur" birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar 2019.