ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Fundur stjórnmálaflokkanna um #metoo

Ég sat í pallborði á fundi stjórnmálaflokkanna í dag um #metoo. Þar fórum við yfir hvað flokkarnir hafa gert síðustu mánuði og ég fræddi fundargesti um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagst yfir það verkefni hvernig best er að bregðast við og tryggja það að öllum líði vel í stjórnmálastarfinu.

Martin Chungong, framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU), var sérstakur gestur fundarins en ég er einmitt formaður Íslandsdeildar IPU og nýtti því einnig tækifærið eftir að hann fór yfir skýrslu um stöðu kvenna í þjóðþingum Evrópu hvernig hann sæi fyrir sér að þessi samtök væru að þróast þegar kemur að umræðu um mannréttindi. Því á síðasta fundi, sl. haust, eins og ég vakti athygli á hér og í fjölmiðlum voru greidd atkvæði gegn því að ræða málefni hinsegin fólks. Það var ánægjulegt að heyra að hann var nokkuð bjartsýnn á að þessi atkvæðagreiðsla hafi verið undantekning enda byggir sambandið að lýðræði og mannréttindi séu rædd opinskátt milli flest allra landa heimsins á þessum vettvangi þingmanna.

Hlusta má á erindi hans, forsætisráðherra og pallborðið (sem byrjar á 1:20) hér: https://www.youtube.com/watch?v=WfjdeEUvkiQ&fbclid=IwAR3SL8JNAm2RldLhVB8YvT8PYFn1KcuVvp031SmpdDtB9RFOZEXiiXL_rs8

Lokaorðin mín voru þessi: „Það á ekki neinn að sætta sig við það að komið sé fram við sig af yfirlæti, ruddaskap og virðingarleysi. Ég mun ekki gera það og ég veit að þið munuð ekki gera það. Stærsti árangur þessarar umræðu er að hún á sér stað og rætt er heiðarlega um hvar mörkin liggja. Ósk mín er sú að þeir sem tileinka sér ekki þetta viðhorf um virðingu í samskiptum munu að lokum dæma sjálfa sig úr leik.”

Sjá myndir: https://www.facebook.com/aslaugarna/posts/1146528748851279