Við þurfum sífellt að horfa til framtíðar. Um leið hugum við að því hvernig við mótum framtíðina og hvernig hún mótar okkur á móti. Ein af áskorunum sem við stöndum frammi fyrir felst í því hvernig samsetning mannfjöldans er að breytast hér á landi. Við erum ekki ein. Aðrar þjóðir standa einnig frammi fyrir því sama þar sem meðalaldur fer sífellt hækkandi – sem gerir það að verkum að færri standa undir samneyslunni.
Í áskorunum felast einnig tækifæri og þar verða nýsköpun og tækni lykilatriði. Þar er raunverulegur möguleiki að auka framleiðni hér á landi svo þessi breyting á þjóðfélaginu hafi ekki alvarlegar afleiðingar. Með öflugri nýsköpun getum við skarað fram úr og tæknivætt atvinnugreinar og þar með nýtt þann mannafla sem við munum hafa, aukið framleiðni og bætt lífskjörin. Tækifærin felast í því að auka fjölbreytileika fólks hvað varðar menntun, færni og þekkingu.
Nýsköpun er ekki bara tískuorð. Nær daglega fáum við fréttir af starfsemi fyrirtækja, stórra sem lítilla, þar sem hugmyndir hafa orðið að veruleika og verðmætum. Nýsköpun er undanfari þeirra miklu tæknibreytinga sem við höfum séð og upplifað á síðustu árum. Hægt er að telja upp margvíslega þætti, s.s. í framleiðslu og þjónustu, samskiptum, heilbrigðisþjónustu, vísindum o.s.frv. þar sem nýsköpun hefur orðið til þess að auðvelda og einfalda líf okkar, auka verðmæti og ýta undir frekari þróun mannkynsins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið leiðandi í stuðningi við nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Síðustu ár hefur hámarkið á endurgreiðslu á þeim kostnaði sem fellur til vegna rannsóknar og þróunar verið hækkað og nú síðast í desember. Sú upphæð sem nú er leyfilegt að draga frá skatti er 600 milljónir króna í stað 300 áður og 900 milljónir í stað 450 milljóna áður ef um samstarfsverkefni er að ræða eða verkefni sem útheimta aðkeypta rannsóknar- og þróunarvinnu. Hækkanir á þessum upphæðum hafa m.a. orðið til þess að fyrirtæki landsins verja meira fjármagni í rannsóknir og þróun en áður. Í fyrra vörðu þau um 35,4 milljörðum króna en í samanburði tæpum 19 milljörðum árið 2013.
Tækifærin til að gera enn betur og skara fram úr eru sannarlega til staðar. Með því að leggja áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun, bæði í menntakerfinu og í atvinnulífinu, röðum við okkur í fremstu röð þjóða. Þannig löðum við að bæði fyrirtæki og starfsfólk, innlent sem erlent, ýtum undir stofnun nýrra fyrirtækja, sköpum grundvöll fyrir betur borgandi störf og þannig mætti áfram telja.
Við getum ekki mótað allt sem framtíðin ber í skauti sér en við getum mótað þetta ferli og gert það vel.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. mars 2019.