Nýsköpun er ekki tískuorð

Við þurf­um sí­fellt að horfa til framtíðar. Um leið hug­um við að því hvernig við mót­um framtíðina og hvernig hún mót­ar okk­ur á móti. Ein af áskor­un­um sem við stönd­um frammi fyr­ir felst í því hvernig sam­setn­ing mann­fjöld­ans er að breyt­ast hér á landi. Við erum ekki ein. Aðrar þjóðir standa einnig frammi fyr­ir því sama þar sem meðal­ald­ur fer sí­fellt hækk­andi – sem ger­ir það að verk­um að færri standa und­ir sam­neysl­unni.

Í áskor­un­um fel­ast einnig tæki­færi og þar verða ný­sköp­un og tækni lyk­il­atriði. Þar er raun­veru­leg­ur mögu­leiki að auka fram­leiðni hér á landi svo þessi breyt­ing á þjóðfé­lag­inu hafi ekki al­var­leg­ar af­leiðing­ar. Með öfl­ugri ný­sköp­un get­um við skarað fram úr og tækni­vætt at­vinnu­grein­ar og þar með nýtt þann mannafla sem við mun­um hafa, aukið fram­leiðni og bætt lífs­kjör­in. Tæki­fær­in fel­ast í því að auka fjöl­breyti­leika fólks hvað varðar mennt­un, færni og þekk­ingu.

Ný­sköp­un er ekki bara tísku­orð. Nær dag­lega fáum við frétt­ir af starf­semi fyr­ir­tækja, stórra sem lít­illa, þar sem hug­mynd­ir hafa orðið að veru­leika og verðmæt­um. Ný­sköp­un er und­an­fari þeirra miklu tækni­breyt­inga sem við höf­um séð og upp­lifað á síðustu árum. Hægt er að telja upp marg­vís­lega þætti, s.s. í fram­leiðslu og þjón­ustu, sam­skipt­um, heil­brigðisþjón­ustu, vís­ind­um o.s.frv. þar sem ný­sköp­un hef­ur orðið til þess að auðvelda og ein­falda líf okk­ar, auka verðmæti og ýta und­ir frek­ari þróun mann­kyns­ins.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur verið leiðandi í stuðningi við ný­sköp­un í ís­lensku at­vinnu­lífi. Síðustu ár hef­ur há­markið á end­ur­greiðslu á þeim kostnaði sem fell­ur til vegna rann­sókn­ar og þró­un­ar verið hækkað og nú síðast í des­em­ber. Sú upp­hæð sem nú er leyfi­legt að draga frá skatti er 600 millj­ón­ir króna í stað 300 áður og 900 millj­ón­ir í stað 450 millj­óna áður ef um sam­starfs­verk­efni er að ræða eða verk­efni sem útheimta aðkeypta rann­sókn­ar- og þró­un­ar­vinnu. Hækk­an­ir á þess­um upp­hæðum hafa m.a. orðið til þess að fyr­ir­tæki lands­ins verja meira fjár­magni í rann­sókn­ir og þróun en áður. Í fyrra vörðu þau um 35,4 millj­örðum króna en í sam­an­b­urði tæp­um 19 millj­örðum árið 2013.

Tæki­fær­in til að gera enn bet­ur og skara fram úr eru sann­ar­lega til staðar. Með því að leggja áherslu á ný­sköp­un, rann­sókn­ir og þróun, bæði í mennta­kerf­inu og í at­vinnu­líf­inu, röðum við okk­ur í fremstu röð þjóða. Þannig löðum við að bæði fyr­ir­tæki og starfs­fólk, inn­lent sem er­lent, ýtum und­ir stofn­un nýrra fyr­ir­tækja, sköp­um grund­völl fyr­ir bet­ur borg­andi störf og þannig mætti áfram telja.

Við get­um ekki mótað allt sem framtíðin ber í skauti sér en við get­um mótað þetta ferli og gert það vel.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. mars 2019.