ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Hringferðin: Vestfirðir

Frábærir dagar á norðanverðum Vestfjörðum í hringferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

📍Súðavík, Bolungarvík, Ísafjörður, Flateyri og Suðureyri.

Hittum fjölmarga Vestfirðinga á fundum okkar, það er ekkert skemmtilegra en að sjá hve áhuginn er mikill á ferðinni okkar og hve vel er mætt á fundina. Við fengum líka að kynnast öflugum fyrirtækjum á svæðinu og heyra frá verkefnum þeirra. Hér er mest rætt um raforku, fiskeldi og samgöngur, þó önnur mál ber einnig á góma.

Magnað að sjá hvað fyrirtæki líkt og Kerecis og 3X Skaginn eru að gera, nýsköpun og þróun hefur þar verið lykilatriði til að gera framúrskarandi vörur sem keppst er um víða um heim. M.a er verið að búa til vöru úr fiskroði sem er farin að seljast til spítala um allan heim þar sem hún kemur í stað skinns og hjálpar við langvinnum sárum og sykursýki.

Svo var gaman að sjá frumkvöðla af svæðinu sem eru að ná árangri með vörurnar sínar: bjór frá Dokkunni og súkkulaði frá Salt og Sætt. Frábærar vörur sem við vorum svo heppin að fá að bragða á.

Þá var einnig afar gaman að heimsækja Lýðháskólann á Flateyri, kynnast starfsemi skólans og heyra hvernig áhrif hann er að hafa á samfélagið. Við fengum einnig heimboð á Sólbakka til varaþingmanns okkar úr NV-kjördæmi Teits Björns Einarssonar.

Gærkvöldinu lauk svo á kótilettum og gleðskap á Suðureyri, þar sem sjálfstæðismenn fjölmenntu og verið var að styrkja starfsemi Björgunarsveitarinnar á svæðinu.

Takk fyrir mig Vestfirðir!

📍Í dag heimsóttum við suðurfirðina, Bíldudal, Tálknafjörð og Patreksfjörð eftir bátsferð frá Þingeyri. Það var fallegt að sigla úr Dýrafirði og inn Arnarfjörð. Einstaklega gaman að hitta fólkið af svæðinu á fundum og heimsækja fyrirtækin. Veðrið skemmdi svo ekki fyrir og nú keyrum við í bæinn en þar bíða okkar þingfundir og fjölmörg brýn mál.

Nánar á facebooksíðu sem og myndir.