Vond kennslustund

Það var áhugavert að fylgjast með umfjöllun Landans á RÚV um liðna helgi um ungmennaráð Suðurlands. Af þeim áhugaverðu málefnum sem unga fólkið á Suðurlandi fjallaði um nefndi það skatta sérstaklega. Einn viðmælandi þáttarins hafði orð á því að það vantaði aukna fræðslu um skatta. Ungt fólk áttaði sig á því þegar það færi að vinna að það væri búið að taka stóran hluta launa þeirra í skatt.

Það bregður sjálfsagt öllum sem koma nýir inn á vinnumarkaðinn þegar þeir skoða launaseðilinn sinn. Stór hluti teknanna er tekinn í skatt og launþegar meðhöndla aldrei þá upphæð. Það er að vísu nokkuð sem mætti skoða, hvort ekki sé réttara að launþegar fái útgreidd brúttólaun sín og standi sjálfir skil á skattgreiðslum. Þannig kann að vera erfiðara fyrir hið opinbera að hækka skatta. Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu þar sem hvatt er til þess að hið opinbera, bæði stofnanir og fyrirtæki, aðgreini skiptingu útsvars og tekjuskatts á launaseðlum starfsmanna sinna til að varpa betra ljósi á það hvernig skattheimtu er háttað.

Það er rétt hjá unga fólkinu á Suðurlandi að það vantar meiri fræðslu um skatta. Þeir sem fylgdust með öðrum þætti á RÚV vikuna áður, Silfrinu, fengu þar kennslustund í því hvernig maður ætti ekki að horfa til skatta og skattheimtu. Í umræðu um stöðu ferðaþjónustunnar ítrekaði Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, fyrri stefnu flokksins um að hækka skatta á þessa mikilvægu atvinnugrein. Oddný, sem er fyrrverandi fjármálaráðherra, sagði að ferðaþjónustan nyti enn skattaafsláttar þar sem meginþorri hennar væri í neðra þrepi virðisaukaskatts. Hún lét þess ógetið að ferðaþjónustan greiðir, ein útflutningsgreina, virðisaukaskatt og skilar þannig umtalsverðu fjármagni í ríkiskassann. Hún lét þess líka ógetið að störf í ferðaþjónustu hafa nær tvöfaldast á innan við áratug sem aftur skapar hinu opinbera tekjur, að ónefndum öllum óbeinu áhrifunum sem ferðaþjónustan hefur til hins betra á íslenskt efnahagslíf.

Það væri hægt að halda langa tölu um það hversu miklar tekjur ferðaþjónustan skapar opinberum aðilum í núverandi skattaumhverfi. Það viðhorf sem birtist til skatta er sem fyrr segir ekki síður dýrmæt lexía um það hvernig maður ætti ekki að horfa á skattheimtu. Það er rangt að líta á innheimtu á neðra þrepi virðisaukaskatts sem skattaafslátt eða einhvers konar opinberan styrk, sérstaklega þar sem útflutningsgreinar (sem ferðaþjónustan er) greiða almennt ekki virðisaukaskatt.

Það er vond kennslustund ef skilaboðin eru þau að öll skattheimta undir 100% sé gjöf frá ríkinu.

Pistillinn „Vond kennslustund” birtist í Morgunblaðinu 9. apríl 2019.