Enginn afsláttur af fullveldi

Efa­semd­ir um inn­leiðingu þriðja orkupakk­ans byggj­ast á þeim mis­skiln­ingi að í hon­um fel­ist af­sal á yf­ir­ráðum yfir auðlind­um, framsal á full­veldi, skuld­bind­ing um lagn­ingu sæ­strengs og jafn­vel brot á stjórn­ar­skrá. Ekk­ert af þessu á hins veg­ar við rök styðjast. All­ir þeir aðilar sem unnið hafa að málinu, bæði stjórn­mála­menn og sér­fræðing­ar, eru sam­mála um að eins og málið er nú lagt upp feli það ekki í sér brot á stjórn­ar­skrá, framsal á full­veldi eða af­sal á auðlind­um. Þá ligg­ur fyr­ir að eng­inn raforkusæ­streng­ur verður lagður nema með samþykki Alþing­is.

Í þessu máli má einnig heyra tor­tryggni og jafn­vel and­stöðu við EES-samn­ing­inn. Það kann að kalla á allt aðra og meiri umræðu. Það er þó rétt að hafa í huga að EES-samn­ing­ur­inn er eitt mik­il­væg­asta skref sem við Íslend­ing­ar höf­um stigið í alþjóðasam­starfi. EES-samn­ing­ur­inn er að sjálfsögðu ekki haf­inn yfir gagn­rýni. Það verður þó ekki litið fram­hjá því að hann hef­ur fært okk­ur frelsi á ýms­um sviðum og aðgang að innri markaði Evrópu sem er mik­ils virði fyr­ir út­flutn­ings­grein­ar og þar með lands­menn alla. Á því byggj­um við hluta af þeirri hag­sæld sem við búum við í dag.

Í 25 ára sögu EES-samn­ings­ins hafa aðild­ar­ríki aldrei beitt rétti sín­um til að neita að staðfesta ákv­arðanir sín­ar í sam­eig­in­legu EES-nefnd­inni. Ástæðan er einkum sú að þegar aðild­ar­rík­in taka ákvörðun í sam­eig­in­legu nefnd­inni um atriði sem taka skal upp í samn­ing­inn er jafn­an að baki lang­ur und­ir­bún­ing­ur þar sem þjóðþing­in hafa beina aðkomu að mál­um. Ein­staka mál eru þannig lengi í vinnslu með vilja og vit­und þeirra ríkja sem að samn­ingn­um standa. Það á einnig við um svo­kallaða orkupakka.

Af öll­um aðild­ar­ríkj­um EES á Ísland lang­sam­lega mest und­ir því að samn­ing­ur­inn haldi og að fram­kvæmd hans gangi vel. Það væri því ábyrgðarleysi gagn­vart ís­lensk­um hags­mun­um að setja fram­kvæmd samn­ings­ins í upp­nám af litlu sem engu til­efni. Það er hins veg­ar ástæða fyr­ir okk­ur til að sam­ein­ast um það mark­mið að vakta laga­setn­ing­ar og reglu­gerðir mun bet­ur. Á þetta hef ég lagt áherslu sem formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar Alþing­is. Hér eiga stjórn­völd, at­vinnu­líf og fleiri aðilar mik­illa hags­muna að gæta.

Alþingi ætti ekki og mun ekki hika við að nýta rétt sinn til að hafna inn­leiðingu og upp­töku EES-reglna ef ís­lensk­um hags­mun­um er veru­lega ógnað. Ekk­ert í þriðja orkupakk­an­um, eins og upp­taka hans og inn­leiðing ligg­ur nú fyr­ir Alþingi, gef­ur hins veg­ar til­efni til að nota þann ör­ygg­is­ventil í fyrsta sinn.

Það er og verður stefna Sjálf­stæðis­flokks­ins að standa vörð um full­veldi lands­ins og yf­ir­ráð Íslend­inga yfir þeim auðlind­um sem hér er að finna. Það á ekki síður við í þessu máli.

Greinin „Enginn afsláttur af fullveldi" birtist í Morgunblaðinu 18. apríl 2019