Efasemdir um innleiðingu þriðja orkupakkans byggjast á þeim misskilningi að í honum felist afsal á yfirráðum yfir auðlindum, framsal á fullveldi, skuldbinding um lagningu sæstrengs og jafnvel brot á stjórnarskrá. Ekkert af þessu á hins vegar við rök styðjast. Allir þeir aðilar sem unnið hafa að málinu, bæði stjórnmálamenn og sérfræðingar, eru sammála um að eins og málið er nú lagt upp feli það ekki í sér brot á stjórnarskrá, framsal á fullveldi eða afsal á auðlindum. Þá liggur fyrir að enginn raforkusæstrengur verður lagður nema með samþykki Alþingis.
Í þessu máli má einnig heyra tortryggni og jafnvel andstöðu við EES-samninginn. Það kann að kalla á allt aðra og meiri umræðu. Það er þó rétt að hafa í huga að EES-samningurinn er eitt mikilvægasta skref sem við Íslendingar höfum stigið í alþjóðasamstarfi. EES-samningurinn er að sjálfsögðu ekki hafinn yfir gagnrýni. Það verður þó ekki litið framhjá því að hann hefur fært okkur frelsi á ýmsum sviðum og aðgang að innri markaði Evrópu sem er mikils virði fyrir útflutningsgreinar og þar með landsmenn alla. Á því byggjum við hluta af þeirri hagsæld sem við búum við í dag.
Í 25 ára sögu EES-samningsins hafa aðildarríki aldrei beitt rétti sínum til að neita að staðfesta ákvarðanir sínar í sameiginlegu EES-nefndinni. Ástæðan er einkum sú að þegar aðildarríkin taka ákvörðun í sameiginlegu nefndinni um atriði sem taka skal upp í samninginn er jafnan að baki langur undirbúningur þar sem þjóðþingin hafa beina aðkomu að málum. Einstaka mál eru þannig lengi í vinnslu með vilja og vitund þeirra ríkja sem að samningnum standa. Það á einnig við um svokallaða orkupakka.
Af öllum aðildarríkjum EES á Ísland langsamlega mest undir því að samningurinn haldi og að framkvæmd hans gangi vel. Það væri því ábyrgðarleysi gagnvart íslenskum hagsmunum að setja framkvæmd samningsins í uppnám af litlu sem engu tilefni. Það er hins vegar ástæða fyrir okkur til að sameinast um það markmið að vakta lagasetningar og reglugerðir mun betur. Á þetta hef ég lagt áherslu sem formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Hér eiga stjórnvöld, atvinnulíf og fleiri aðilar mikilla hagsmuna að gæta.
Alþingi ætti ekki og mun ekki hika við að nýta rétt sinn til að hafna innleiðingu og upptöku EES-reglna ef íslenskum hagsmunum er verulega ógnað. Ekkert í þriðja orkupakkanum, eins og upptaka hans og innleiðing liggur nú fyrir Alþingi, gefur hins vegar tilefni til að nota þann öryggisventil í fyrsta sinn.
Það er og verður stefna Sjálfstæðisflokksins að standa vörð um fullveldi landsins og yfirráð Íslendinga yfir þeim auðlindum sem hér er að finna. Það á ekki síður við í þessu máli.
Greinin „Enginn afsláttur af fullveldi" birtist í Morgunblaðinu 18. apríl 2019