Aðildin að EES-samstarfinu er líklega eitt mesta gæfuspor sem Ísland hefur tekið á seinni árum. EES-samstarfið veitti okkur aðgang að innri markaði Evrópu og færði okkur úr gjaldeyrishöftum sem höfðu þá varað í rúm 60 ár. Við þekkjum það hvernig EES-samstarfið ýtti undir frjálst flæði á vörum, fólki, þjónustu og fjármagni á svæði þar sem búa yfir 500 milljónir manna og flýtti fyrir efnahagslegri uppbyggingu hér á landi. Ávinningurinn af samstarfinu er það mikill að öllum má vera ljóst að við erum að fórna minni hagsmunum fyrir meiri með aðild okkar að því.
Að undanförnu hefur skapast umræða um veru okkar í EES-samstarfinu, sem er í raun umræða um þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi. Þessi umræða hefur ekki verið tekin í talsverðan tíma hér á landi. Mögulega er það vegna þess að þeir sem eru í það minnsta undir fertugu þekkja lítið annað en að njóta þeirra kosta og lífsgæða sem EES-samningurinn færir okkur. Þau þekkja tækifærin til að mennta sig erlendis, búa þar og starfa, lífsgæðin sem fylgja því að geta stundað frjáls viðskipti milli landa og telja það í raun sjálfsagðan hlut.
Mögulega höfum við of sjaldan tekið alvöru umræðu um alþjóðasamstarf. Það má velta því upp hvort Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur verið andsnúinn inngöngu Íslands í Evrópusambandið – og ég er þar ekki undanskilin – hafi í andstöðu sinni látið það liggja fullmikið á milli hluta að tala um aðra kosti alþjóðasamstarfs, aukinnar þátttöku Íslands í starfi alþjóðastofnana, aukinna viðskipta milli landa og þannig mætti áfram telja.
Það má að sama skapi velta því upp hvort stuðningsmenn þess að Ísland gerist aðili að ESB hafi ekki gerst sekir um hið sama. Að fólk hafi þannig einblínt of mikið á inngöngu í Evrópusambandið en á sama tíma hunsað aðra mikilvæga þætti í þeim tækifærum sem við höfum til að taka þátt í og móta alþjóðasamstarf okkar. Í stuttu máli má segja að mögulega hafi umræðan um það hvort Ísland eigi að gerast aðili að ESB truflað okkur í því að ræða af einhverri alvöru um utanríkismál og alþjóðasamstarf í víðara samhengi.
Ákvörðunin um að gerast aðili að EES-samstarfi var tekin af stjórnvöldum sem þá voru þess fullviss að aukin tenging okkar við umheiminn væri til hins góða. Menn vissu og trúðu því að aukin viðskipti milli landa myndu færa okkur aukna hagsæld, að það væru tækifæri fólgin í því að geta menntað sig og starfað erlendis, að fá hingað til lands fólk til starfa og að flytja fjármagn óheft á milli landa. Ávinningurinn af þessari framtíðarsýn um öflugra og betra samfélag er ótvíræður og það er ljóst að lífskjör á Íslandi væru lakari fyrir alla landsmenn ef við værum ekki hluti af EES-samstarfinu.
Pistillinn „Sjálfsögð lífsgæði?” birtist í Morgunblaðinu 30. apríl 2019.