ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Lögreglumessa 1.maí 2019

Góðan daginn og til hamingju með þennan frábæra viðburð hér í dag. Ég er þakklát fyrir að fá tækifæri til að segja hér nokkur orð. Lífið er sífellt að gefa manni nýjar áskoranir og tækifæri og dagarnir eru ansi fjölbreyttir. Lífið er nefnilega svo dásamlegt þrátt fyrir alla þröskuldana í því.

Svo ég tali eilítið á persónulegum nótum þá er það enn meiri heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag, þar sem móðir mín heitin, Kristín Steinarsdóttir, hefði orðið 60 ára einmitt í dag. 1. maí hefur því alltaf í gegnum tíðina verið sérlegur hátíðisdagur á mínu heimili og er það enn.

Kæru vinir,

Ég reyni að hafa það sem leiðarstef í mínu lífi að hver dagur sé dýrmætur, hvert andartak og hver upplifun einstök. Þetta eru skilaboð sem reynast mörgum flókin í amstri dagsins og þar er ég ekki undanskilin. Það er áskorun fyrir mig og fleiri að staldra við og muna að njóta, muna að lífið er ekki sjálfgefið og hver dagur sé dýrmætur. Þeir sem starfað hafa við löggæslu vita það líklega manna best að hver dagur er dýrmætur.

Ég var svo lánsöm að hafa fengið tækifæri til að starfa sem héraðslögreglumaður bæði í lögreglunni á Selfossi og Hvolsvelli. Sú reynsla var mér afar mikils virði og ég lít tilbaka með miklu þakklæti.

Ég mun aldrei gleyma atviki á mínum fyrstu vöktum á Hvolsvelli. Þá í fyrsta sinn fór ég í útkall á heimili fólks þar sem talsvert hafði gengið á. Mér brá að börnin hefðu orðið vitni af ofbeldinu og fyrstu viðbrögð mín voru að gefa þeim faðmlag. Ég var þó ekki alveg viss að ég sem lögreglumaður mætti gera þetta og spurði því yfirlögreglumanninn seinna sama dag hvort þetta hefði verið við hæfi eða hvort ég hefði átt að gera eitthvað öðruvísi. Svarið sem ég fékk var einfalt: ,,Gerðu alltaf það sem þér líður vel með í svona aðstæðum. Það getur einmitt – stundum verið faðmlag”.

Þetta þótti mér vænt um og í raun fannst mér vænst um í starfi lögreglumannsins þessi mannlega nálgun og samskipti sem er svo stór hluti af starfinu. Það er kannski sá þáttur sem hinn almenni borgari sér hvað sjaldnast frá lögreglunni, nema þegar á reynir á eigin skinni – í persónulegum málefnum sem lögreglan kemur að. En það er ekki síst mikilvægur hluti af starfi lögreglumanna, þeir koma oft fyrstir á vettvang á erfiðustu tímapunktum einstaklinga, oft inn í erfiðar aðstæður og þá ekki síst aðstæður sem reyna á sálina. Það eru augnablik sem enginn vill upplifa – en reyna á þessa mikilvægu grunnstoð samfélagsins sem lögreglan er.

Kæru gestir,
Flest höfum við gengið í gegnum erfiða lífsreynslu sem sett hefur mark sitt á lífið.

Eins og segir í kvæði Guðmundar Friðjónssonar:
Lánið bæði og lífið er valt, ljós og myrkur vega salt.

Það er mikið til í þessum orðum því ýmsir viðburðir á lífsins vegi reynast misstórir þröskuldar sem þarf að klífa yfir. Og manni finnst lífið ekki alltaf sanngjarnt þegar þröskuldarnir eru háir og verkefnin sem manni er úthlutað hreinlega ósanngjörn. Það er nefnilega margt hægt að segja um lífið, það er skemmtilegt og dýrmætt, oft stútfullt af gleði, nýjum hlutum og góðum vinum. Og því má ekki gleyma, að lifa lífinu lifandi þó það dimmi fyrir á köflum.

Ég kom ekki hingað í dag til að flytja pólitíska ræðu – enda held ég að enginn hafi óskað sérstaklega eftir því … – en eitt eiga þingmenn og lögreglumenn sameiginlegt. Starf okkar er ekki í þágu stofnana, ríkisvaldsins eða kerfisins – heldur í þágu fólksins í landinu. Við getum haft ýmsar skoðanir á því hvernig hlutirnir eiga að vera og hvernig þeir eiga ekki að vera – en fyrst og fremst erum við þjónar samfélagsins, þjónar fólksins.

Það er líka ánægjulegt að sjá hversu mikils trausts lögreglan nýtur hér á landi, enda sem fyrr segir ein mikilvægasta grunnstoð samfélagsins. Það traust er ekki byggt upp af neinni stofnun, heldur ykkur sem klæðist búningnum í daglegum störfum ykkar og eruð andlit löggæslunnar. Mikilvægast af öllu er þó að á meðan lögreglan nýtur þess traust sem hún gerir, þá nýtur almenningur í landinu öryggistilfinningar.

Þessi öryggistilfinning er okkur öllum mikilvæg og það má í framhaldinu velta því fyrir sér hvernig við sköpum þá öryggistilfinningu.

Við getum til að mynda ekki horft framhjá því að það sem gerist erlendis getur einnig gerst hér. Ég veit að löggæslan hér á landi er vel vakandi yfir þeim atvikum sem eiga sér stað utan landsteinanna og á undanförnum árum hefur verið lögð mikil áhersla á það að lögreglan hér á landi sé í stakk búin til þess að bregðast við ólíkum aðstæðum, til að mynda í miklum mannfjölda. Við viljum búa í öruggu samfélagi og ég treysti lögreglunni vel til þess að vega og meta hvaða viðbúnað og þjálfun þarf til þess. Það má nefna í þessu samhengi ýmsa þætti svo sem almannavarnir, umferðaröryggi, netöryggi, skipulagða glæpastarfsemi og þannig mætti áfram telja. Við viljum upplifa okkur örugg á öllum stigum.

En það er líka fleira sem þarf til þess að skapa öryggistilfinningu heldur en sýnilega löggæsla.

Öryggistilfinning mótast líka af náungakærleikanum og því hvernig við komum fram við hvort annað. Það hefur ekki farið framhjá nokkrum þeim sem fylgist með þjóðfélagsumræðunni að umræðan hefur orðið harkalegri með árunum. Alltof oft nálgumst við umræðuna – og um leið fólkið sem tekur þátt í henni – með of harkalegum hætti og gerum fólki upp annarlegar hvatir. Heilbrigð skoðanaskipti og málefnalegar umræður víkja þannig fyrir heiftinni sem yfirtekur umræðuna. Ég er hér ekki eingöngu að vísa til stjórnmála eða fjölmiðlaumfjöllunar, heldur er ég að nefna þetta í víðara samhengi því þetta á við um öll samskipti.

Við getum tekið orð og gjörðir til baka, við getum fyrirgefið og öll höfum við væntanlega verið á þeim stað að þurfa á fyrirgefningu frá öðrum að halda.

En með því að koma betur fram við hvort annað sköpum við líka öryggistilfinningu. Það að sýna – og meðtaka – náungakærleika skapar ekki aðeins hlýju og velllíðan, heldur líka öryggistilfinningu sem er þess eðlis að við viljum alltaf halda í hana. Hvort sem það er hlýlegt bros í næstu verslun, faðmlag á erfiðum stundum, stutt símtal til ástvina, það að veita öxl til að gráta á eða hlátur til að samgleðjast – þá lærum við það alltaf betur og betur hvað kærleikurinn skiptir miklu máli. Eins og ég kom inn á hér í upphafi vitum við aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér og þið sem starfið við löggæslu hafið svo sannarlega upplifað bæðu verstu og bestu hliðar samfélagsins.

Ágætu gestir,
Þakklætið ætti að vera leiðarstef á góðu og slæmu dögunum. Þakklæti fyrir lífið og dýrðina í því, og líka þakklætið sem maður finnur í sorginni, þakklætið fyrir allt það sem maður saknar. Það er sterk tilfinning hjá mér í dag.

Það er ekki hægt að halda heila ræðu í kirkju án þess að vitna í ritninguna. Margir þekkja þrettánda kaflann úr fyrra bréfi Páls til Korintumanna þar sem hann fjallar um kærleikann. Í sama bréfi í áttunda kafla segir í fyrsta versi; „Þekkingin blæs menn upp en kærleikurinn byggir upp.”

Og það er einmitt þannig sem við ættum að byggja líf okkar upp, á kærleika. Þannig ættum við að nálgast og byggja upp hvort annað og þannig byggjum við held ég líka upp betra samfélag. – Takk fyrir