Það er afar merkilegt að formaður Miðflokksins ráðist nú að því að einhver leynd hafi hvílt yfir fundi utanríkismálanefndar í gær. Ég veit ekki hvernig hægt er að fá það út.
Fundur utanríkismálanefndar sem haldin var í gær fimmtudaginn 9. maí kl. 13:00 var boðaður með SMS-skilaboðum og tölvupósti sem send voru miðvikudaginn 8. maí kl. 16:13 og 16:18. Ekkert er óvanalegt við þá fundarboðun eða fyrirvara. Fundartafla nefndardaga var send öllum þingmönnum í tölvupósti mánudaginn 6. maí kl. 15:06 og þar kom skýrt fram að utanríkismálanefnd ætti fundartíma frá kl. 13:00 á fimmtudeginum 9. maí svo sá fundartími getur ekki hafa komið á óvart. Að auki má auðvitað nefna að tímasetning og dagskrá nefndarfunda birtist alltaf líka undir flipanum „fundir og heimsóknir“ á heimasíðu þingsins.
Þar að auki var farið yfir dagskrá fundarins í gær á morgunfundi nefndarinnar á miðvikudaginn sem og upptalningu á öllum gestum fundarins. Þar var Carl Baudenbacker engin undantekning enda var boðið uppá hvort nefndarmenn myndu óska eftir túlk daginn eftir. Ég hafði einnig nefnt það við fulltrúa Miðflokksins að fimmtudagsfundurinn væri einstaklega langur og þéttur. Enda gestakomur 12 talsins, Baudenbacker, SI, Viðskiptaráð Landsvirkjun, Orkan okkar, Landsamband bakarameistara og svo má áfram telja.
Ég mæli með að fara frekar í málefnaumræðu um orkupakkann í stað þess að reyna tortryggja hefðbundna fundi nefndarinnar sem Miðflokksmenn hreinlega gleymdu eða kusu að mæta ekki á.