ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Atkvæðagreiðsla um þungunarrof

Ég studdi í dag frumvarp um þungunarrof. Afhverju? Jú eftir að hafa kynnt mér málið og lesið allar hliðar er auðvitað ljóst að málið er bæði viðkvæmt og snúið. Það snertir á mörgum mannlegum hliðum. Í grunninn er það samt einfalt. Því það snýst aðeins um að breyta ákvörðuninni, frá nefnd(embættismönnum) til kvennanna sjálfra.

95% þungunarrofa fara fram fyrir 12 viku, 3% fyrir 16 viku og aðeins 1% eftir. Að fara seint í þungunarrof er engri konu léttvæg ákvörðun, það þori ég að fullyrða.

En það er mín sannfæring að uppað ákveðnu marki þar sem við metum að fóstur hafi sjálfstæðan rétt tel ég einu réttu leiðina vera að konan hafi þessa ákvörðun sjálf. Ástæður geta verið margvíslegar, en það er ógjörningur að setja slíkt niður í löggjöf. Ég treysti konum að taka þessa erfiðu ákvörðun, hennar líf, hennar líkami – hennar ákvörðun.

Umræðan hefur verið sérstök, bæði erfið og stundum dapurleg. Ég tel það engum til framdráttar að tala niður til þeirra sem eru þeim ósammála um þessi mál, það er ekki auðvelt að þurfa að móta þessa löggjöf. Við erum að breyta gamalli löggjöf, réttindi og staða kvenna hafa blessunarlega breyst. En við skulum hvorki vanvirða þá sem eru frumvarpinu ósammála, né þá sem eru því sammála – en aðallega ekki þær konur sem hafa þurft að taka þessa erfiðu ákvörðun.

En það er ekki síst sannfæring mín um frelsi einstaklingsins og sjálfsákvörðunarrétt sem gerir það að verkum að ég fæ þessa niðurstöðu og styð frumvarpið.