ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Eldhúsdagur: Framtíðin bankar á dyrnar

Ræðan mín í heild sinni á eldhúsdeginum birtirst hér að neðan.
Hér má einnig lesa tvær fréttir um ræðuna:

https://www.frettabladid.is/frettir/alid-a-otta-og-malefnaleg-umraeda-sett-i-gapastokkinn/?fbclid=IwAR26s9Vye3Knjn_RfA22ILCpXKjcMTwqpeUjymmtXMf31Sl1i6ZC-qa8pok

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/05/29/minni_spamenn_breyti_efasemdum_i_otta/?fbclid=IwAR2200sy9j2jOX8–jWARQrGwQI_VOWzGCYfw2EYXoCqe_fHf-4hOGV6rXo

Herra forseti. Kæru landsmenn. Orð skipta máli. Það skiptir máli hvernig við veljum þau og hvernig við notum þau. Við getum glatt og lyft upp en við getum líka sært og brotið niður með orðum einum. Við getum blekkt og við getum sagt satt.

Við eigum að reyna eftir fremsta megni að gera okkur skiljanleg og tala um mál sem skipta alla máli. Stundum set ég mig í spor þeirra sem hlusta á okkur hér í þessum sal tala um þjóðarframleiðslu, greiðslujöfnuð, þorskígildisstuðla, frumjöfnuð, kerfisáhættu, greiðsluafkomu ríkissjóðs eftir A-hluta, B-hluta og C-hluta og annað karp um kerfislæga þætti. Þótt þetta allt sé nauðsynlegt velti ég stundum fyrir mér hvernig fólk sem ekki er inni í því sem stundum virðist líkara sápukúlu en löggjafarsamkomu á að leggja mat á það hvort og hvernig starf okkar hér og löngu ræðurnar skipta máli fyrir almenning og fyrirtæki í landinu. Ég tel að við öll hér inni eigum það sameiginlega markmið að ætla að bæta líf allra þótt við séum ekki alltaf sammála um leiðir. Við viljum huga að málum sem bæta líf okkar í nálægri framtíð, málum sem gera alla frjálsari, hamingjusamari og skapa framfarir þannig að allir finni á eigin skinni að það sé aðeins betra að vera til í dag en í gær og að morgundagurinn geti verið enn betri.

Eðlilega koma upp efasemdir, spurningar og gagnrýni á þær leiðir sem við veljum að fara. Í heilbrigðu umhverfi ætti þá að fara fram gagnrýnin, yfirveguð og staðreyndamiðuð umræða. Sagan kennir okkur hins vegar að það er í umhverfi efasemda sem minni spámenn sjá sér leik á borði og breyta efasemdum í ótta. Þeir vita sem er að þegar fólk er óttaslegið er auðveldara að stíga á bremsuna og taka óskynsamlegar ákvarðanir. Þegar alið er á ótta er málefnaleg umræða sett í gapastokkinn og við tekur eðlishvötin. Og eðlishvötin segir okkur að breytingar séu hættulegar.

Það verða alltaf til stjórnmálamenn sem vilja nota óttann og búa þannig til ímyndaðan óvin til að beina í einhvern farveg óttanum sem þeir hafa sjálfir skapað. Þeir trúa því að ef við bara pökkum í vörn, stingum hausnum í sandinn og rétt lítum upp til að borða bara íslenskt muni okkur farnast vel.

Jaðarflokkar eru alltaf með einfaldar lausnir á vandamálunum sem þeir sjálfir hafa búið til og þannig flokkar og þannig stjórnmálamenn sem virðast telja það hápunkt stjórnmálastarfsins að þvæla og segja ósatt, rægja og rífa svo kjaft hafa það stundum fram yfir aðra að skammbúinn einfaldleiki lýðskrumsins getur verið heillandi fyrir einhverja. Hin svokölluðu hefðbundnu stjórnmál hljóma þá þæfð og þreytt í samanburðinum en það stendur þá á okkur hér að tala skýrt og taka stjórnina en ekki taka undir eða lúta í lægra haldi fyrir lýðskruminu.

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið fjallað um EES-samninginn í þessum sal undanfarið. Öllum nema þeim sem kjósa að setja kíkinn fyrir blinda augað má vera ljóst að sá samningur hefur gjörbreytt íslensku samfélagi, aukið bæði velmegun og frelsi, og eiga þeir sem innleiddu hann miklar þakkir skilið fyrir þá framsýni sem þeir sýndu. Margir þekkja ekki annað en Ísland innan EES-samstarfsins og ég efast um að þeir sem muna eftir Íslandi utan EES vilji snúa aftur til þess tíma. Það er hins vegar margt annað sem er betra að hafa að leiðarljósi við mótun utanríkis- og viðskiptastefnu okkar en þessa eitruðu blöndu af afturhaldi, fortíðarþrá og framtíðarótta.

Kæru landsmenn. Heimurinn hefur breyst hratt á síðustu áratugum. Mestu breytingarnar hafa þó ekki endilega orðið með ákvörðunum stjórnvalda. Þannig segir rithöfundurinn Yuval Noah Harari í bók sinni 21 lærdómur fyrir 21. öldina að fátt hafi breytt meiru en internetið og bendir svo á að enginn hafi greitt atkvæði um internetið í þingkosningum. Samhliða því og auknu viðskiptafrelsi er heimurinn allur orðinn hverfisverslunin okkar og íslensk fyrirtæki geta selt vörur, hugvit og þjónustu til allra heimshorna, rétt eins og íslenskir neytendur hafa sömu tækifæri til að versla og nýta sér alþjóðlega þjónustu. Alþjóðavæðingin virðist ógnvænleg fyrir suma og við vitum ekki alltaf hvað er handan við hornið. Framtíðin bankar á dyrnar, burt séð frá því hversu margir vilja berjast gegn henni, og Ísland mun halda áfram að breytast, verða frjálsara, betra og hagsælla en það var í gær. Við stoppum ekki framþróun en við höfum alla burði til að taka þátt í henni. Sjálfstæðisflokkurinn mun sem fyrr vera þar í forystu.