Það er áhugavert að fylgjast með umræðum um breytingar á fjármálastefnu ríkisins fram til ársins 2022. Ég ætla þó ekki að þreyta lesendur með ítarlegri upptalningu á því sem þarf að taka til endurskoðunar og endurmats vegna breyttra aðstæðna í efnahagslífinu.
Aftur á móti sjá og vita þeir sem vilja að burtséð frá því hversu vel við skipuleggjum þá þarf stundum að endurskoða áætlanir með tilliti til breyttra aðstæðna. Það á við um alla hluti lífsins og þar eru fjármál ríkisins ekki undanskilin.
Breyttar aðstæður, m.a. vegna loðnubrests og breytinga í ferðaþjónustunni, gera það að verkum að endurskoða þarf fjármálastefnu ríkisins. Að miklu leyti er verkefnið sem þarf að leysa tæknilegt – en óneitanlega er dregin mjó lína á milli tæknilegra úrlausna og hugmyndafræðinnar.
Umræða um skatta fer iðulega yfir þessa línu. Sjálfstæðisflokkurinn, sem stýrir fjármálaráðuneytinu, hefur lagt áherslu á að lækka skatta. Sumir gagnrýna forystu Sjálfstæðisflokksins fyrir að lækka skatta ekki nógu mikið og sú gagnrýni á að mörgu leyti rétt á sér. Á hinn bóginn eru vinstri menn sem telja aldrei réttan tíma til að lækka skatta, hvort sem vel árar í hagkerfinu eða illa.
Þetta kristallaðist meðal annars í orðum þingmanns Samfylkingarinnar á Alþingi í vikunni sem gagnrýndi fjármálaráðherra, ekki bara fyrir að lækka skatta heldur fyrir að hækka ekki skatta. Þingmaðurinn talaði um „vannýtt tekjuúrræði“ í þessu samhengi. Sami þingmaður gagnrýndi fjármálaráðherra einnig fyrir að lækka skatta þegar fjármálastefnan var upphaflega lögð fram, þegar útlitið í hagkerfinu var betra en það er nú. Í hugarheimi Samfylkingar fela lægri skattar – að skilja meira eftir í vasa launafólks – í sér „afsal“ á tekjum ríkissjóðs.
Þingmaðurinn spurði fjármálaráðherra hvort ekki væri rétt að taka upp auðlegðarskatt og hvort að við vildum í raun hafa 27 milljarða króna „skattastyrk“ til ferðaþjónustunnar – sem endurspeglar viðhorf vinstri manna að lágir skattar séu opinber styrkur til atvinnulífsins. Samfylkingin vill í raun að allir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, borgi meira af erfiði sínu til ríkisins alveg óháð stöðu ríkissjóðs. Ekki hentar að lækka skatta þegar vel gengur og því síður þegar staða hagkerfisins er verri.
Það er nöturlegt að verða vitni að því þegar stjórnmálamenn líta á skattgreiðendur sem endalausa uppsprettu fjármagns.
Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr. Við ætlum að lækka skatta enn frekar og leyfa einstaklingum og fyrirtækjum að njóta erfiðisins. Það á við um alla skattstofna, tekjuskatt, útsvar, tryggingargjald, erfðafjárskatt, stimpilgjöld og svo má lengi telja. Við höfum aldrei litið á dugnað og útsjónarsemi sem uppsprettu fyrir ríkissjóð.
Greinin „Vannýtt tekjuúrræði?" birtist í Morgunblaðinu 6. júní 2019.