ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Staða og staðreyndir um þriðja orkupakkann

Í dag afgreiddum við þriðja orkupakkann úr utanríkismálanefnd og hann kemur því til annarrar umræðu á Alþingi á morgun. Þetta gerðum við í meirihlutanum að vel ígrunduðu máli, nefndin hefur leitast við að fá fram sem víðtækust sjónarmið og sendi frá sér 132 umsagnarbeiðnir. Nefndinni barst 51 umsögn, jafnt frá fræðimönnum, félagasamtökum og einstaklingum. Fjöldi gesta kom fyrir nefndina síðustu tvær vikur, á sex fundum, og nefndin vildi tryggja að almenningur hefði sem greiðastan aðgang að upplýsingum um málið og voru því allir fundir með gestum opnir fjölmiðlum.

Mig langar að varpa ljósi á nokkur atriði með eins einföldum hætti og mögulegt er. Hvað felst raunverulega í þriðja orkupakkanum?

1. Gerðir er varða jarðgas (Ísland fékk undanþágu).
2. Krafa er um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja. (Ísland fékk undanþágu)
3. Ítarlegri ákvæði um sjálfstæði raforkueftirlits. Nýmæli þar er meðal annars um sjálfstæði frá aðilum á markaði og stjórnvöldum.
4. Hnykkt er á þeim sterka neytendarétti sem einkennir alla orkupakkana og felst meðal annars í skýrum rétti neytenda til að velja sér orkusala að vild, skipta hratt og auðveldlega um orkusala sem og að fá ítarlegar upplýsingar um orkunotkun og verðlagningu.

Það hefur þó skapast meiri umræða um hvað felst ekki í þriðja orkupakkanum og hér er rétt að benda á nokkrar staðreyndir:

a. Þriðji orkupakkinn hefur engin áhrif á forræði Íslendinga yfir orkuauðlindinni.
b. Þriðji orkupakkinn stuðlar að lægra verði, en ekki hærra, þar sem hann eykur neytendavernd, stuðlar að aukinni samkeppni og jafnræði milli aðila.
c. Þriðji orkupakkinn hefur enga þýðingu gagnvart einkavæðingu, eignarhaldi eða uppskiptingu íslenskra orkufyrirtækja í opinberri eigu.
d. Þriðji orkupakkinn leggur engar skyldur á herðar Íslandi að samþykkja lagningu sæstrengs (né getur erlendur aðili fyrirskipað um slíkt).
e. Þau ákvæði þriðja orkupakkans sem fela í sér afmarkað valdframsal hafa enga þýðingu hér á landi, þar sem engin tenging er til staðar við innri raforkumarkaðinn.

Þriðji orkupakkinn hefur verið lengi til meðferðar hér á landi og í samráði við Alþingi síðan 2010. Hluti af pakkanum var samþykktur með breytingu á raforkulögum 2015 og við fengum undanþágur fyrr í ferlinu, eins og ég nefni hér að ofan. Fyrirvarinn var lagður til af þeim fræðimönnum sem einir hafa viðrar raunverulegar áhyggjur af því hvort þriðji orkupakkinn standist stjórnarskrá. Aðrir fræðimenn eru sammála um að innleiðing og upptaka þriðja orkupakkans án fyrirvara samræmist íslenskum stjórnskipunarlögum. Þessi svör voru fengin eftir að það vöknuðu upp nýjar spurningar og áhyggjur sem við tókum alvarlega og frestuðum málinu til að fá fleiri álitsgerðir um málið. Á þeim var síðan byggt við gerð þingsályktunartillögunnar. Fyrirvarinn er unninn að fyrirmynd þeirra lausnar sem Stefán Már og Friðrik Hirst lögðu til.

Fyrirvarinn er afar skýr og hefur inntak hans verið staðfest bæði af framkvæmdastjóra orkumála hjá ESB og EFTA-ríkjunum í sameiginlegu EES-nefndinni. Það hefur mikla þýðingu. Þar er t.d. áréttað að raforkukerfi Íslands sé eins og stendur einangrað kerfi og ekki tengt við raforkusæstreng milli Íslands og orkukerfis innri markaðar ESB. Vegna þess er hluti ákvæða ekki í gildi á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar. Einnig er þar áréttað að ákvæði þriðja orkupakkans hafi engin áhrif á full yfirráð EFTA-ríkjanna í EES yfir orkuauðlindum sínum og ráðstöfun þeirra og hagnýtingu. Framangreindar yfirlýsingar hafa bæði pólitískt og þjóðréttarlegt gildi. Í tilkynningu Íslands til EFTA-skrifstofunnar, um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara, verður einnig vísað sérstaklega bæði til yfirlýsingar framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn ESB og utanríkisráðherra frá 20. mars sl. og til sameiginlegrar yfirlýsingar EFTA-ríkjanna innan EES sem gefin var í sameiginlegu EES-nefndinni 8. maí sl. Þar með er skjalfestur sá sameiginlegi skilningur allra aðila að Ísland hafi eftir sem áður full yfirráð yfir orkuauðlindum sínum. Um það er ekki deilt.

Það sem kom fram í máli Baudenbachers var ekkert nýtt, heldur var reynt að varpa ljósi á stöðu EES-samningsins og að hann væri í hættu ef við myndum nýta þann öryggisventil sem við höfum til að hafna innleiðingu ákveðinna reglugerða. Sá öryggisventill er og verður áfram til staðar og hægt er að nýta hann þegar efni standa til. Að öllu því sem hér kemur fram tel ég ekki tilefni til þess vegna þriðja orkupakkans.

Að lokum vil ég taka fram að ég hef átt gott samstarf við nefndina vegna málsins, gert áætlun um vinnuna og gestakomur, nýtt alla fundi utanríkismálanefndar síðustu vikur fyrir þetta mál sem og kallað til alla þá gesti sem óskað hefur verið eftir síðustu tvær vikur. Það verður því ekki annað sagt en að nefndin hafi unnið málið með faglegum hætti, fengið fram þau ólíku sjónarmið sem um málið ríkja og haft þær upplýsingar sem til þarf til að meta næstu skref í málinu. Ég hef lagt mig fram við að halda öllum nefndarmönnum upplýstum og tví- eða þrítók það í síðustu viku að áætlað væri að taka málið úr nefnd í kringum helgina. Á föstudaginn var farið yfir efni nefndarálits meirihlutans og tekið skýrt fram að þeirri vinnu yrði lokið um helgina og afgreiðsla málsins yrði á mánudag.