Það væri líklega margt öðruvísi ef stjórnmálamenn færu ávallt þá leið að stýra einstaklingum í rétta átt að þeirra mati með sköttum eða íþyngjandi löggjöf. Mér er til efs að yfir höfuð væri leyft að aka um á bílum, fá sér bjór, horfa á sjónvarp, nota netið og áfram mætti telja. Bannið væri rökstutt með góðum tilgangi; enn verða bílslys, enn eiga margir við áfengissjúkdóm að stríða, sjónvarp er óhollt heilsunni, netið er stundum notað í slæmum tilgangi. Með þessu væri ríkinu ætlað að leysa öll heimsins vandamál. Einhverjum gæti dottið í hug að segja að það væri falleg hugsun – en hún gengur hins vegar ekki upp í framkvæmd. Við erum nefnilega öll hugsandi fólk með eigin tilfinningar, væntingar, langanir, markmið, skoðanir – og galla ef út í það er farið. Ríkið getur aldrei gert öllum til hæfis né tryggt að þarfir hvers einasta manns séu uppfylltar, enda ekki hlutverk þess.
Við sem samfélag horfum á hverjum tíma framan í ýmsar áskoranir sem almennt er samstaða um að bregðast þurfi við. Á þeim eru oftast mismunandi einstaklingsbundnar lausnir. Alla jafna eru lausnirnar þegar til og fólk þarf einungis að sjá að umræddar lausnir henti því. Sem dæmi getur það dugað mörgum sem þurfa að bæta heilsu sína að finna hvaða hreyfing hentar best. Aðrir gætu þurft önnur ráð. En lausnirnar eru flestar til og flestar skapaðar af framtaki einstaklinga.
Á dögunum var unnin skýrsla um lýðheilsumál sem er ekki sú fyrsta á síðustu árum og var margt í henni afar jákvætt sem full ástæða er til að sýna fyllstu athygli og hrinda í framkvæmd. En ein af þeim hugmyndum sem út úr þeirri vinnu kom var að taka að nýju upp sykurskatt á Íslandi í þeim tilgangi að sporna við sykurneyslu. Þar ætla menn væntanlega að leysa málin með einföldum hætti, halda að skattar á neysluvörur dragi úr neyslu og að almenningur muni þar með lifa við meiri hollustu. En hér fer hljóð og mynd í raunveruleikanum ekki alveg saman.
Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir því að afnema sykurskatt árið 2015. Síðan þá hefur dregið úr sölu sykraðra gosdrykkja. Því hefði átt að vera öfugt farið ef skattheimta á neysluvörur stýrir hegðun fólks. Líklega hefur aukin vitund um heilsu og hollustu hafi meiri áhrif á neyslu en tilraunir hins opinbera til að stjórna hegðun fólks.
Það er hættuleg braut að feta þegar stjórnmálamenn telja sig og ríkið geta leyst öll vandamál – jafnvel þótt tilgangurinn sé góður. Við skulum treysta fólki til að velja sjálft hvað það kaupir, hvað það gefur börnunum sínum að borða, en um leið leggja meiri áherslu á fræðslu og forvarnir sem stuðla að vaxandi lýðheilsu þar sem fólk ræður för um það sem því sjálfu er fyrir bestu hverju sinni.
Greinin „Allt í góðum tilgangi“ birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2019.