Brátt hefst að nýju umræða á Alþingi um þriðja orkupakkann, sem hefur þegar verið ræddur meira en nokkurt annað þingmál í sögunni, en málinu lýkur með atkvæðagreiðslu í þinginu 2. september. Þó að málið hafi verið í vinnslu hjá stjórnvöldum og Alþingi í mörg ár er það fyrst nú upp á síðkastið sem andstaða við það hefur sprottið upp og stórar fullyrðingar settar fram um meintar skelfilegar afleiðingar þess.
Oft hefur verið haldið fram röngum og villandi fullyrðingum um málið, meðal annars í bláa bæklingnum sem fylgdi Morgunblaðinu í síðustu viku.
Þar var gefið í skyn að markmið þriðja orkupakkans fæli í sér að Íslendingum væri skylt að leggja sæstreng til Evrópu. Markmið orkupakkans er vissulega að efla innri markaðinn sem við höfum verið partur af síðan 1993 en breytir engu um að endanlegt vald um millilandatengingar er hjá hverju landi fyrir sig. Það er margstaðfest af helstu sérfræðingum um EES-samninginn og einnig framkvæmdastjóra orkumála hjá ESB. Þá er fullyrt að með innleiðingunni komi samræmd evrópsk löggjöf í stað íslenskrar. Það er alrangt því að við ákváðum árið 1999 að taka upp evrópska löggjöf í orkumálum og innleiddum hana fjórum árum síðar. Þriðji orkupakkinn er því ekki frávik heldur framhald á áratugalangri stefnu Íslands. Það er alfarið á hendi Íslands að taka ákvörðun um lagningu sæstrengs eins og fram kom í samdóma áliti fræðimanna sem komu fyrir utanríkismálanefnd. En til þess að taka af öll tvímæli hefur verið lagt fram lagafrumvarp þar sem kveðið er á um að ekki verði ráðist í tengingu með sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis.
Í orkupakkanum felst ekki afsal á forræði yfir auðlindinni. Takmarkað og afmarkað valdaframsal á einungis við um tiltekin afmörkuð málefni ef Ísland ákveður að tengjast sæstreng til Evrópu. Rétt eins og segir í minnisblaði frá utanríkisráðuneyti þegar Gunnar Bragi Sveinsson gegndi embætti utanríkisráðherra: „Rétt er að hafa í huga varðandi stofnunina ACER og valdheimildir hennar, að á meðan að Ísland er einangrað raforkukerfi, þ.e. ekki með tengingu í nein önnur raforkukerfi t.d. með sæstreng, þá getur ACER ekki tekið ákvörðun gegn Íslandi.“ En ef Alþingi tæki ákvörðun um að tengjast landi innan ESB, sem Bretland verður til dæmis ólíklega innan skamms, myndi virkjast tveggja stoða fyrirkomulagið þannig að Eftirlitsstofnun EFTA tæki ákvörðunina en ekki ACER. Því er í engu tilviki um að ræða framsal til stofnana Evrópusambandsins, hvort sem við tengjumst eða ekki.
Margt af því sem rætt hefur verið síðustu misserin mun nýtast vel við vinnu við gerð orkustefnu fyrir Ísland en alltof mikið af því á ekki við um þriðja orkupakkann og er til þess fallið að afvegaleiða umræðuna.