Á föstudaginn tók ég við embætti dómsmálaráðherra og settist í ríkisstjórn. Það eru ýmiss konar tilfinningar sem koma upp þegar maður fær símtal um að maður sé að taka við stöðu ráðherra tæplega sólarhring seinna. Fyrst og fremst er ég þakklát fyrir að mér sé treyst fyrir svo vandasömu verkefni. Ég átta mig líka á því að það er ekki sjálfsagt og færri en fleiri fá þann möguleika í stjórnmálum að sinna embætti ráðherra.
Ég er full tilhlökkunar að takast á við þau fjölmörgu mál sem undir dómsmálaráðuneytið heyra. Markmið mitt í stjórnmálum er – og hefur alltaf verið – að gera líf almennings einfaldara og betra. Ég hef haft það að leiðarljósi í verkum mínum í þinginu og það mun ég einnig gera sem ráðherra.
Öryggi og festa eru hugtök sem koma upp í hugann þegar kemur að starfsemi dómsmálaráðuneytisins. Öllum má vera ljóst mikilvægi þess að tryggja öryggi landsmanna, treysta almannavarnir, tryggja það að lögreglan hafi mannskap, búnað og fjármagn til að sinna hlutverki sínu, tryggja það að Landhelgisgæslan sé þeim tækjum búin sem hún þarf, að viðbragðsáætlanir almannavarna séu þess eðlis að þær virki þegar á reynir og þannig mætti lengi telja. Allt eru þetta mikilvæg verkefni sem flestir stjórnmálamenn eru sammála um. Að sama skapi er mikilvægt að fólk trúi og treysti á réttarríkið og viti að réttindi borgaranna eru ávallt í fyrirrúmi. Það er einnig hluti af því að tryggja öryggi almennings í víðu samhengi.
Hlutverk dómsmálaráðuneytisins, og undirstofnana þess, er þó ekki bundið við það að tryggja öryggi. Hlutverk þess er líka að tryggja festu og þjónusta almenning. Ríkisstofnanir eiga að líta á sig sem þjónustustofnanir sem hafa það að markmiði að gera líf almennings einfaldara. Hinn almenni borgari á að geta gengið að því sem vísu að réttindi hans séu byggð á vel ígrunduðum reglum, að það sé einfalt að nálgast þær upplýsingar sem þörf er á, að það sé með einföldum hætti hægt að afgreiða þau mál sem að honum snúa. Því þurfa reglur að vera skýrar, gegnsæjar og skilvirkar. Það sama gildir um þjónustu hins opinbera. Þar er mikilvægt að auka stafræna stjórnsýslu eins og hægt er.
Sum málefni ráðuneytisins fá meiri athygli en önnur. Það eru gjarnan þau málefni sem snerta einstaklinga afar persónulega og þau mál mun ég nálgast af virðingu, bæði fyrir fólki og málefninu. Það má hugsa til formfestu með ýmsum hætti. Hún má ekki verða til þess að stjórnsýslan verði ómannúðleg en hún þarf að vera þannig úr garði gerð að hún tryggi jafnræði og réttindi.
Ég er þakklát þeim fjölmörgu aðilum sem hafa samglaðst mér yfir þessu nýja verkefni. Fyrst og fremst er ég þó þakklát fyrir þau tækifæri sem felast í því að gera lífið betra fyrir okkur öll.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. september 2019.