ÁSLAUG ARNA SIGURBJÖRNSDÓTTIR

Kveðjuræða sem ritari Sjálfstæðisflokksins

Fundarstjóri, formaður Sjálfstæðisflokksins, kæru sjálfstæðismenn. 

 

Fyrir fjórum árum stóð ég, nokkuð óvænt, fyrir framan ykkur á landsfundi og spurði „ meinum við það þegar við segjum að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að ná til ungs fólks, meinum við það að Sjálfstæðisflokkurinn hlusti á ungt fólk og meinum við það að Sjálfstæðisflokkurinn treysti ungu fólki?”

 

Þið svöruðuð afdráttarlaust og fyrir það svar verð ég ávallt þakklát. Þið studduð mig, 25 ára gamla til að verða ritari stærsta stjórnmálaflokks landsins og bera ábyrgð á innra starfi hans. Þannig sýndi landsfundurinn að Sjálfstæðisflokkurinn treystir ungu fólki fyrir ábyrgðar- og forystuhluverki. 

 

Í dag kveð ég embætti sem mér þykir vænt um en er um leið afar þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt með því að fela mér embætti dómsmálaráðherra. Þó það sé vissulega freistandi, þá ætla ég ekki að verja löngum tíma hér í að fara yfir þau fjögur ár sem ég hef gegnt embætti ritara. Ég vil þó taka fram að sífellt hefur verið unnið í því að bæta upplýsingagjöf og samskipti og ég hef lagt áherslu á það að auka samskipti kjörinna fulltrúa við flokksmenn. Ég hef heimsótt flestöll félög landsins, sum oftar en önnur og Ísafjörð miklu oftar. Þingflokkurinn fór í stóra hringferð um landið síðastliðið vor sem er fyrsta sinn sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fer saman um allt land og heimsótti hátt í 60 bæjarfélög og þannig mætti áfram telja. Allt sem ég hef gert hefur verið til þess að auka samskiptin, breikka ásýnd flokksins og sýna öflugt starf okkar út um allt land, bæta stefnumótun, og auka samvinnu. Starf flokksins út um allt land er öflugt og það er ykkur að þakka. Ég hef notið þess að hitta ykkur, ræða pólitíkina, ræða flokkinn en líka kynnast ykkur. Enginn er ríkari en Sjálfstæðisflokkurinn með þennan ótrúlega mannauð.

 

Kæru félagar,

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það í verki að ungu fólki er treyst – það er ekki innihaldslaust tal á hátíðarstundum. Í þessum efnum sem öðrum sýnir Sjálfstæðisflokkurinn styrk sinn – við sjálfstæðismenn meinum það sem við segjum og framkvæmum það sem við lofum. 

 

Enginn annar stjórnmálaflokkur býr yfir þeim styrkleika sem felst í öflugu flokksstarfi þar sem einstaklingar með fjölbreyttar skoðanir og ólíkan bakgrunn, sameinast í grunnhugsjónum um frelsi einstaklingsins og trúnni á getu hans og mátt. Innan Sjálfstæðisflokksins rúmast margar hugmyndir. Það er styrkleiki en ekki veikleiki. Ágætur vinur minn hefur líkt Sjálfstæðisflokknum við suðupott hugmynda – þar kraumi allt undir og stundum sjóði upp úr. Þannig eigi þetta að vera og forysta Sjálfstæðisflokksins eigi að fagna því þegar tekist er á um ólíkar skoðanir og aðferðir. Þannig eflist flokkurinn og flokksstarfið verður líflegra og skemmtilegra. Það er merki um pólitískt sjálfstraust að búa til jarðveg fyrir ólíkar hugmyndir sem allar eiga það sameiginlegt að tryggja grunnhugsjón sjálfstæðisstefnunnar. Og pólitískt sjálfstraust er forsenda fyrir pólitískum landvinningum. 

 

Sjálfstæðisflokkurinn á svo sannarlega erindi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á grunngildi um frelsi einstaklingsins til orða og athafna, minni ríkisafskipti, frjáls viðskipti, lægri skatta og öflugt atvinnulíf. Þessi atriði áttu erindi við stofnun hans fyrir 90 árum, eiga enn og munu áfram eiga erindi við almenning, þá sérstaklega þar sem úr öðrum áttum er sífellt gerð krafa um hærri skatta, aukin útgjöld og aðra útþenslu hins opinbera. 

 

Við erum flokkur sem getur í senn horft yfir farinn veg og til framtíðar, við erum flokkur sem rúmum unga sem aldna, karla og konur, hagsmuni höfuðborgarsvæðisins samhliða hagsmunum landsbyggðanna, ólíkar skoðanir á einstaka málum og þannig mætti áfram telja. Hann er flokkur iðnverkafólks og stjórnenda í atvinnulífinu, hann er flokkur kennara og sjómanna – flokkur sem treystir einstaklingum til að taka skynsamlegar ákvarðanir og skapar tækifæri fyrir alla. 

 

Það er það sem mun gera Sjálfstæðisflokkinn áfram að stærsta hreyfiafli íslenskra stjórnmála; hvetja nýtt fólk til starfa innan flokksins og gera sjálfstæðismenn stolta af því að tilheyra stærsta stjórnmálaflokki landsins. Ekkert af grunngildunum hefur breyst og á þeim trausta grunni munum við sækja fram. 

 

Kæru vinir,

Síðustu vikur og mánuði hefur nokkuð verið fjallað um stöðu Sjálfstæðisflokksins. Það er að vissu leyti ánægjulegt að sjá hversu margir telja sig, í það minnsta opinberlega, hafa áhyggjur af stöðu flokksins og vilja skilgreina hann fyrir okkur. Þeir sem harðast ganga fram í gagnrýni sinni á flokkinn virðast þó ekki geta gert upp við sig hvort að flokkurinn sé of íhaldssamur eða of frjálslyndur. Á meðan sumir andstæðinga okkar halda því fram að hvorki konur né ungt fólk geti haft áhrif innan flokksins eru aðrir sem halda því fram að flokknum sé stjórnað af krökkum og stelpuskjátum – og enn aðrir sem halda að þeim sé jafnvel stjórnað af einhverjum öðrum. Á meðan sumir saka forystu flokksins um einangrunarhyggju eru aðrir sem saka hana um algjöra eftirgjöf og undirgefni við alþjóðastofnanir og erlend ríkjabandalög.

 

Þó svo að ekkert af þessu eigi við rök að styðjast verður að segjast eins og er að það er ágætt að fólk hafi skoðun á Sjálfstæðisflokknum, starfi flokksins, kjörnum fulltrúum og ekki síst, stefnu hans. Vonandi kemur aldrei sá dagur að fólk hætti að hafa skoðun á flokknum, því það er sá dagur sem flokkurinn hættir að hafa áhrif. Það er enginn hér inni sem vill upplifa þann dag. En við skulum ekki láta öðrum það eftir að skilgreina Sjálfstæðisflokkinn – það gerum við sjálf með hugmyndum okkar og framgöngu, af fullu sjálfstrausti sem okkur er nauðsynlegt en án alls hroka og yfirlætis.

 

Það skiptir máli að Sjálfstæðisflokkurinn sé kjölfesta í íslenskum stjórnmálum, flokkur sem er leiðandi bæði í orðum og gjörðum. Við þurfum ekki annað en að horfa til þeirrar efnahagsstefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir í ríkisstjórn síðastliðin sex ár, í samanburði við þá óstjórn sem ríkir í rekstri Reykjavíkurborgar – þar sem fjórir vinstri flokkar sitja við völd. Þurfi menn frekar sannanir, og ef áhugi er fyrir hendi, má líka fylgjast með umræðum um fyrirliggjandi fjárlög sem kynnt voru í vikunni. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn boðar lækkun skatta boðar Samfylkingin og vinir þeirra hækkun skatta sem einu lausnina á öllum helstu vandamálum, raunverulegum og ímynduðum. Á næstu vikum verður ekki bara tekist á um tæknilegan rekstur ríkisins, heldur um hugmyndafræði og grunngildi sem eru okkur svo mikilvæg.

 

Kæru félagar

 

Sjálfstæðisflokkurinn er hvorki einangrunarflokkur né undirlægja alþjóðakerfisins. Það þarf enginn hér inni að hafa áhyggjur af því að flokkurinn okkar sé of íhaldssamur eða of frjálslyndur, hvort hér séu of margar eða of fáar konur í forystu eða hvort innan flokksins sé of mikil eða of lítil reynsla til að leiða flokkinn.

 

Við eigum frekar að velta því fyrir okkur hvernig við komum þeim mikilvægu skilaboðum og stefnumálum okkar á framfæri. Ég nefndi hér áðan nokkur af grunngildum flokksins og ítrekaði að þau hafa ekki breyst. Skilaboðin eru þau sömu en það hafa sjaldan verið fleiri leiðir til að koma þeim á framfæri. 

 

Þegar Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir tíu árum síðan var ekkert til sem hét Snapchat eða Instragram. iPadinn var enn ekki kominn, við gátum ekki pantað okkur leigubíl með appi, deilihagkerfið eins og við þekkjum það í dag hafði ekki litið dagsins ljós og streymisveitur á borð við Netflix voru rétt að stíga sín fyrstu skref. Á þessum tíma voru Íslendingar að týnast inn á Facebook en lítið inn á twitter og fáir höfðu nægilegt gagnamagn til að horfa mikið á YouTube. Þetta eru bara tíu ár!

 

Fyrir tíu árum hefði fáum dottið í hug að ferðaþjónustan yrði ein stærsta atvinnugrein landsins, að heilu fyrirtækin yrðu starfrækt hér á landi í kringum tölvuleikja- og hugbúnaðargerð, að gagnaver yrðu stórnotendur að raforku og sjálfsagt voru fáir sem sáu það fyrir sér að Ísland myndi spila á EM og HM.

 

Þetta rifja ég allt upp til að benda á þá augljósu staðreynd að tímarnir breytast hratt. 

 

Verki okkar er hvergi nær lokið – ef við ætlum áfram að verða burðarás í íslenskum stjórnmálum verður Sjálfstæðisflokkurinn að eiga samskipti við alla hópa. Það gerum við með ólíkum hætti, en samskiptin munu og verða að eiga sér stað. Við getum haldið fundi í Valhöll og um allt land til að ræða ýmis mál, skrifað greinar í blöðin og við getum líka komið skilaboðum áleiðis á samfélagsmiðlum. 

 

Hröð tækniþróun felur í sér aukin tækifæri og nýjar samskiptaleiðir.  Sú þróun gengisfellir ekki umræðuna, hugmyndirnar og gildin okkar rýrna ekki við nýja tækni, þvert á móti við eigum meiri möguleika en áður á því að láta í okkur heyra, koma skoðunum okkar á framfæri, vera okkar eigin fjölmiðill og tryggja að allir fái tækifæri til að kynnast sjálfstæðisstefnunni. Í þessu máli verður Sjálfstæðisflokkurinn verður að vera á tánum, okkur ber skylda til að nýta þessa nýju möguleika.

 

Kæru vinir,

 

Ég vil aftur þakka það traust sem þið hafið sýnt mér á liðnum árum. Þó ég hafi nú látið af starfi ritara mun ég áfram láta innra starf flokksins okkar mig miklu varða. Á nýjum vettvangi mun ég áfram halda á lofti stefnu og gildum Sjálfstæðisflokksins, ég mun aldrei hika við að segja og standa með minni skoðun, berjast fyrir nauðsynlegum breytingum og standa vörð um sameiginleg gildi okkar. 

 

Ég óska nýjum ritara flokksins velfarnaðar í starfi og ég veit að við munum öll áfram berjast fyrir stefnu og gildum flokksins okkar, alls staðar þar sem við fáum tækifæri og vinnum þannig landinu okkar gagn.

 

Sjálfstæðisflokkurinn er framtíðin.

 

Takk fyrir.